„Við erum yfirfull, það eru kettir í hverju rými. Við erum með kött inni á starfsmannasalerni, inni í bílskúr, á matarganginum, bara í hverju einasta rými hjá okkur. Þetta er svolítið svart ástand,“ segir Hanna Evensen, rekstrarstjóri Kattholts.
Hún segir að tölurnar séu sláandi, hún heyri endalaust af köttum sem þurfi ný heimili. Á hverjum degi dúndrist inn Facebook færslur af köttum í leit að nýjum heimilum, og einnig séu margir kettir og hundar á skrá Dýrahjálpar.
Þetta virðist gerast svolítið á sumrin síðustu ár, af hverju?
„Já fólk er að fara í sumarfrí, eða flytja eða komið upp ofnæmi á heimilinu eða eitthvað slíkt. Á meðan fólk er í sumarfríum er enginn að ætleiða, þannig er bara venjan,“ segir Hanna.
Fólk hringi inn á hverjum degi, og vilji losa sig við kettina sína. „Ég verð bara því miður að vísa þeim frá sem eru ekki neyðartilvik,“ segir Hanna.

Í augnablikinu vísi Kattholt á Dýrahjálp, og bendir fólki á að auglýsa sjálft á Facebook.
Hverju beinir þú til fólks sem er í þessum hugleiðingum?
„Í guðs bænum, örmerkið dýrin ykkar, geldið dýrin ykkar, hættið að styðja kettlingamyllur. Reynum að sýna smá ábyrgð í verki,“ segir Hanna Evensen, rekstrarstjóri Kattholts.
