Orri hefur verið leikmaður FCK síðan sumarið 2020 og var drjúgur í markaskorun fyrir yngri lið félagsins en tækifærin í aðalliðinu hafa verið af skornari skammti.
Aðrir hafa verið honum ofar í goggunarröðinni, einna helst hinn stæðilegi Cornelius, og Orri mátt sætta sig við mikla bekkjarsetu á tímabilinu. Hann hefur þó nýtt tækifærin vel þegar þau gefast og skoraði meðal annars mark í sigri sem tryggði liðinu þátttökurétt í Sambandsdeildinni.
Talið var að Orri vildi losna frá félaginu og finna meiri spiltíma annars staðar en svo virðist ekki vera.
FCK hefur greinilega mikla trú á honum því félagið hafnaði á dögunum risatilboði frá Girona upp á 15 milljónir evra og endursamdi við Orra til ársins 2028.
„Mig hefur alltaf dreymt um að eiga fast sæti í liðinu síðan ég kom til félagsins árið 2020 og ég hef mikinn metnað fyrir mínum störfum hjá FCK. Ég er með það markmið að verða markahæsti leikmaður Superliga á næsta tímabili og hjálpa liðinu að tryggja næsta titil,“ sagði Orri við undirritun samningsins.