Íslenski boltinn

Davíð aftur í Blika

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Davíð Ingvarsson í leik gegn Víkingum.
Davíð Ingvarsson í leik gegn Víkingum. Vísir/Hulda Margrét

Davíð Ingvarsson stoppaði stutt í Danaveldi og er snúinn aftur í raðir Breiðabliks. Á hann að hjálpa liðinu í baráttunni í Bestu deild karla í fótbolta sem og Evrópubaráttu Blika en liðið er komið í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Vinstri bakvörðurinn skrifar undir samning út tímabilið 2026. Hann hafði ákveðið að reyna fyrir sér hjá Kolding í dönsku B-deildinni en rifti samningi sínum fyrir ekki svo löngu síðan. Hann var orðaður við lið AB í C-deildinni í Danmörku, sem Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfar, en hefur ákveðið að snúa aftur í Kópavoginn.

Davíð gekk til liðs við Breiðblik árið 2016, þá 16 ára gamall. Hann var áður í FH. Hann hefur spilað samtals 173 leiki fyrir græna liðið í Kópavogi og skorað fjögur mörk.

„Þetta eru frábærar fréttir, Davíð er virkilega öflugur leikmaður og styrkir hópinn vel fyrir komandi átök,“ segir í tilkynningu Blika.

Breiðablik tekur á móti KR á morgun, sunnudag. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×