Í kjölfar frelsisstríðs Bangladess við Pakistan árið 1971 var komið á kvóta á opinberum störfum. Þriðjungur þeirra var frátekinn fyrir afkomendur uppgjafarhermanna. Þessum kvóta var aflétt árið 2018 en hæstiréttur ákvarðaði á dögunum að þessum kvóta yrði komið á á nýjan leik.

Það vakti mikla reiði meðal námsmanna í landinu enda er atvinnuleysi ungs fólks útbreitt. Óeirðir brutust út í kjölfarið sem drógu marga til bana. Þegar mest lét á fyrirskipaði ríkisstjórnin útgöngubann og lokuðu fyrir internetaðgang. Herinn fékk þau fyrirmæli að skjóta á mótmælendur sem hlýddu ekki fyrirskipunum þeirra.
Samkvæmt nýjum úrskurði hæstaréttar þar í landi verður kvótinn afmarkaður við fimm prósent opinberra starfa. Stúdentar og samtök mótmælenda hafa fagnað nýjum úrskurði.

Á götum höfuðborgarinnar Dökku er tómlegt um að líta þar sem útgöngubann er í gildi en bangladesskir miðlar greina frá því að óeirðir haldi áfram víðs vegar um landið. Breska ríkisútvarpið hefur eftir talsmanni félags stúdenta að úrskurðinum sé fagnað en að mótmælin haldi áfram þar til ríkisstjórnin verði við kröfum þeirra.
Sheikh Hasina forsætisráðherra hefur verið við völd í hátt í fimmtán ár. Hún og ríkisstjórn hennar hafa verið gagnrýnd fyrir að kveða niður andstöðu með valdi. Krafan um afsögn hennar hefur orðið æ háværari með hverjum degi mótmæla.