Upp­gjörið: ÍA - Stjarnan 1-3 | Stjörnu­menn stálu sigrinum á Skaganum

Hinrik Wöhler skrifar
Örvar Eggertsson skoraði annað mark Stjörnumanna.
Örvar Eggertsson skoraði annað mark Stjörnumanna. Vísir/Anton Brink

Skagamenn tóku á móti Stjörnunni á Akranesi í dag í Bestu deild karla. Gestirnir úr Garðabæ fóru með 3-1 sigur af hólmi í miklum baráttuleik.

Gestirnir úr Garðabæ voru sterkari aðilinn í upphafi leiks án þess þó að opna vörn ÍA upp á gátt. Skagamenn voru fastir fyrir og reyndu að beita skyndisóknum en líkt og Stjarnan náðu ekki að skapa sér nægilega hættuleg færi til að ógna marki Stjörnunnar.

Hinrik Harðarson var hársbreidd frá því að koma heimamönnum yfir á 30. mínútu en skalli hans endaði í stönginni og Stjarnan slapp með skrekkinn.

Það leit allt út fyrir að leikurinn myndi vera markalaus í hálfleik en Skagamenn voru á öðru máli. Johannes Vall tók aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Stjörnunnar, lág spyrna hans fór í gegnum allan pakkann og endaði með því að Viktor Jónsson kom knettinum yfir marklínuna þegar tvær mínútur voru komnar yfir uppbótartíma.

ÍA leiddi með einu marki þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Skaginn byrjaði að krafti í upphafi síðari hálfleiks og fékk Viktor Jónsson tvö góð færi í vítateignum en honum brást bogalistin í bæði skiptin og hitti ekki á rammann.

Gott sem upp úr þurru jöfnuðu Stjörnumenn á 56. mínútu. Baldur Logi Guðlaugsson fékk boltann á miðjum vallarhelming ÍA og lét vaða af löngu færi. Skot hans endaði í markinu en það virtist sem Árni Marinó Einarsson, markvörður ÍA, hafi misreiknað flugið á boltanum og náði ekki að bregðast við skotinu.

Á 80. mínútu komust gestirnir yfir með marki frá Örvari Eggertssyni. Eftir laglegt samspil sendi Róbert Frosti Þorkelsson boltann inn fyrir vörn ÍA og þar var Örvar mættur á ferðinni. Hann skaut föstu skoti sem endaði í fjærhorninu og Stjörnumenn komnir í vænlega stöðu.

Skagamenn ýttu liðinu upp völlinn en það gekk ekki betur en svo að þeir fengu mark í bakið. Það var Jón Hrafn Barkarson sem var aleinn vinstra megin í vítateignum, hann tók sér fínan tíma og afgreiddi skotið snyrtilega fram hjá Árna Marinó í marki Skagamanna. Jón Hrafn kom inn á fyrr í leiknum og var þetta hans fyrsti leikur fyrir liðið í Bestu deildinni.

Atvik leiksins

Það má segja að mark ÍA undir lok fyrri hálfleiks hafi komið gegn gangi leiksins og mótmæltu leikmenn Stjörnunnar markinu harðlega. Leikmenn Stjörnunnar komu þó tvíefldir til baka út í seinni hálfleikinn og kláruðu leikinn.

Stjörnur og skúrkar

Örvar Eggertsson var mikilvægur fyrir Stjörnuna í dag. Hann skoraði annað mark Stjörnunnar en hafði bjargað á línu skömmu áður eftir að Erik Tobias Sandberg skallaði að marki. Helgi Fróði Ingason var einnig afar líflegur í liði Stjörnunnar. Skiptingarnar hjá Jökli gengu frábærlega upp, Emil Atlason lagði upp síðasta mark Stjörnunnar sem Jón Hrafn Barkarson afgreiddi síðan örugglega.

Árni Marinó Einarsson leit ekkert sérstaklega vel út í fyrsta marki Stjörnunnar en líklegast er að aðstæður á vellinum gerðu honum erfitt fyrir. Skagamenn hefðu einnig hæglega getað skorað fleiri mörk en Hinrik Harðarson og Viktor Jónsson fengu aragrúa af álitlegum færum.

Dómarar

Arnar Þór Stefánsson dæmdi leikinn í dag og voru gestirnir úr Garðabæ allt annað en sáttir með að mark ÍA fékk að standa í lok fyrri hálfleiks. Stjörnumenn vildu meina að leikmenn ÍA hafi verið rangstæðir í aðdraganda marksins og fékk Árni Snær Ólafsson, markvörður Stjörnunnar, gult spjald fyrir mótmæli.

Stemning og umgjörð

Það voru ansi haustlegar aðstæður á Skaganum þegar leikurinn fór fram í dag. Það stöðvaði þó ekki Skagamenn að henda upp partýtjaldinu og grillinu. Það heyrðist ágætlega í heimamönnum á leiknum en það fór minna fyrir gestunum úr Garðabæ.

Viðtöl

Árni Snær: „Maður reynir að láta þá snúa þessu en það virkaði ekki þarna“

Árni Snær Ólafsson lék með ÍA áður en hann skipti yfir í Stjörnuna í fyrra.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Árni Snær Ólafsson, markvörður Stjörnunnar, lék lengi vel með ÍA en hafði nú betur gegn sínum gömlu félögum. Hann fékk gult spjald fyrir mótmæli eftir mark Skagamanna undir lok fyrri hálfleiks og var spurður út í atvikið.

„Mér fannst hann hafa áhrif á leikinn í rangstöðunni. Fyrst að það skipti ekki máli þá er maður sáttur núna en það var helvíti pirrandi í mómentinu. Ég þarf að sjá þetta aftur en ég þekki ekki alveg reglurnar en maður reynir að láta þá snúa þessu en það virkaði ekki þarna,“ sagði Árni Snær um mark Skagamanna.

Hann segir að það hafi ekki mikið breyst í hálfleik og leikurinn hefði hæglega getað endað öðruvísi.

„Við komum okkur í svipaða stöður en náðum að nýta það betur. Það var ekki mikið, Skaginn fékk alveg líka stöður en þetta var leikur sem gat dottið beggja megin held ég.“

Að undanförnu hefur Árni Snær leikið flesta deildarleiki á meðan hinn markvörður liðsins Mathias Rosenorn hefur leikið með liðinu í Sambandsdeildinni.

„Við erum með tvo góða markmenn og menn skipta þessu bara. Auðvitað vill maður spila alla leiki en ekkert í því að gera,“ sagði Árni Snær að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira