Sport

Mætti eins og „Clark Kent“ og tryggði liði sínu verð­laun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Nedoroscik með bronsverðlaunin til vinstri og að taka af sér gleraugun til hægri.
Stephen Nedoroscik með bronsverðlaunin til vinstri og að taka af sér gleraugun til hægri. Getty/Tim Clayton

Bandaríska karlalandsliðið í fimleikum vann sín fyrstu Ólympíuverðlaun í liðakeppni í sextán ár þegar þeir bandarísku fengu bronsverðlaun í liðakeppni á ÓL í París.

Einn liðsmaður Bandaríkjamanna sló í gegn á samfélagsmiðlum enda var eins og um sérstakt útkall hafi verið að ræða.

Fimleikamaðurinn Stephen Nedoroscik var í bandaríska bronsliðinu ásamt Asher Hong, Paul Juda, Brody Malone og Frederick Richard en það var Nedoroscik sem átti sviðsljósið í netmiðlum.

Nedoroscik var eingöngu í liðinu til að gera æfingar á bogahesti. Það þótti umdeilt að hann væri í liðinu þrátt fyrir að gera engar æfingar á öðrum áhöldum. Það sáu hinir liðsmennirnir um.

Nedoroscik þurfti síðan að bíða þolinmóður í meira en tvo klukkutíma þangað til loksins kom að honum. Það náðust myndir af honum þar sem hann leit út fyrir að vera sofnaður en var þá í andlegum undirbúningi fyrir keppnina.

Myndavélarnar voru síðan á Nedoroscik þegar hann tók af sér gleraugun og skipti yfir í keppnishaminn. Það kom því ekki á óvart að netverjar fóru að líkja honum við „Clark Kent“ þegar hann breyttist í Súperman.

Það var líka sannkölluðu Súperman frammistaða hjá Nedoroscik á bogahestinum. Hann fékk frábæra einkunn, 14.866, sem þýddi að bandaríska liðið endaði með of 257.793 stig. Aðeins Japan og Kína voru ofar og bandarísku karlarnir voru á verðlaunapalli í fyrsta sinn síðan á Ólympíuleikunum í Peking 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×