Sport

Grét með gullið eftir að hafa endað 36 ára bið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tilfinningarnar flæddu hjá Daniel Wiffen á verðlaunapallinum og hér sést hann þurrka tárin.
Tilfinningarnar flæddu hjá Daniel Wiffen á verðlaunapallinum og hér sést hann þurrka tárin. Getty/Brendan Moran/

Daniel Wiffen varð í gærkvöldi fyrsti íþróttamaðurinn frá Norður-Írlandi til að vinna Ólympíugull í heil 36 ár.

Wiffen vann þá 800 metra skriðsund karla en hann kom í mark 0,56 sekúndum á undan Bandaríkjamanninum Bobby Finke.

Hinn 23 ára gamli Wiffen tryggði sér sigurinn sem svakalegum endaspretti og með því náði hann að setja nýtt Ólympíumet en hann kom í mark á 7:38.19 mín.

„Ég skrifaði niður: Ég ætla að komast í sögubækurnar. Það er einmitt það sem ég gerði,“ sagði Wiffen við BBC.

Þetta voru fyrstu gullverðlaun Norður-Íra síðan á Ólympíuleikunum í Seoul 1988 þegar Stephen Martin og Jimmy Kirkwood voru í gullliði Breta í hokkí.

Wiffen komst óvænt inn á Ólympíuleikana í Tókýó fyrir þremur árum og hefur síðan byggt ofan á það.

„Ef ég segi eins og er þá hefur þetta verið þriggja ára plan. Mitt markmið var að bæta mig og bæta mig þar til ég yrði Ólympíumeistari,“ sagði Wiffen.

„Við fórum úr því að enda í fjórtánda sæti á síðustu Ólympíuleikum, í að komast í úrslitin á HM, vinna verðlaun á Samveldisleikunum, verða fjórði á HM, verða þrefaldur Evrópumeistari, setja heimsmet, verða tvöfaldur heimsmeistari og nú vinna Ólympíugull,“ sagði Wiffen.

„Hvað get ég sagt? Ég er búinn að vinna allt,“ sagði Wiffen.

„Þetta er draumur að rætast. Börn dreymir um að verða Ólympíumeistari og ég var að verða Ólympíumeistari,“ sagði Wiffen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×