Þau Molly Mae og Tommy Fury eru meðal frægustu keppenda sem tekið hafa þátt í bresku raunveruleikaþáttunum Love Island. Síðan hafa þau eignast eina dóttur. Þau kynntust í þáttunum árið 2019 en Molly er fræg fyrirsæta og hefur meðal annars komið til Íslands. Tommy hefur fetað í fótspor bróður síns hnefaleikakappans Tyson og barist í hringnum við KSI.
„Aldrei á milljón árum hefði ég haldið að ég þyrfti að skrifa þetta. Eftir fimm ár saman þá trúði ég því ekki að saga okkar myndi einhvern tímann enda, sérstaklega ekki svona,“ skrifar Molly Mae á Instagram. Hún segist harmi slegin yfir því að sambandið sé á enda.
„Ég verð að eilífu þakklát fyrir það sem skiptir mig mestu máli, dóttur mína. Án okkar væri hún ekki til og hún verður alltaf í forgangi. Ég vil þakka ykkur fyrir ástina sem þið hafið sýnt okkur síðustu fimm ár. Þið hafið öll verið hluti af ferðalaginu og mér finnst rétt að deila þessu með ykkur.“
Þá biður Molly aðdáendur sína um að virða friðhelgi einkalífs hennar næstu daga. Hún segist ætla að taka sér tíma í að ná áttum. Molly sagði frá því í síðustu viku í myndbandsbloggi að hún væri svo gott sem ein að ala upp dóttur þeirra Bambi.
![](https://www.visir.is/i/840D35F7206859F1088A437C1F98F7DC0D2F5CD6E965D959D43783F25E1A23B2_713x0.jpg)