Íslenski boltinn

„Ég ætla rétt að vona að menn hafi ekki verið að spara sig“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sölvi Geir Ottesen stýrði Víkingum í fjarveru Arnars Gunnlaugssonar sem var í leikbanni.
Sölvi Geir Ottesen stýrði Víkingum í fjarveru Arnars Gunnlaugssonar sem var í leikbanni. Vísir/Anton Brink

Sölvi Ottesen stýrði Víkingum í fjarveru þjálfarans Arnars Gunnlaugssonar sem var í leikbanni. Hann sagði frammistöðu Víkinga í dag ólíka því sem þeir eru vanir að sýna.

„Það er mikið svekkelsi. Við ætluðum okkur þrjú stig í dag og ætluðum okkur að sýna betri framimstöðu. Þá er ég sérstklega að tala um fyrri hálfleikinn, við vorum bara ekki mættir til leiks þar,“ sagði Sölvi þegar Gunnlaugur Jónsson ræddi við hann á Stöð 2 Sport eftir leikinn.

Fyrri hálfleikur Víkinga var ekki góður og gerði Sölvi meðal annars fjórar breytingar að honum loknum.

„Við vorum alltof mjúkir, töpuðum held ég öllum návígjum úti á vellinum. Það var skrýtið að horfa upp á þetta. Þetta er svo langt frá því sem við erum vanir frá okkar liði þar sem við erum að mæta í einvígin. Við höfðum gott fordæmi frá síðasta leik úti í Tallinn, fyrri hálfleikur varð bara okkur að falli í dag.“

Hann sagðist ætla að vona að menn hefðu ekki verið að spara sig fyrir næstu leiki en Víkingar spila í Sambandsdeildinni á fimmtudag og eiga góða möguleika á að tryggja sér sæti í riðlakeppni þeirrar keppni.

„Það á ekki að vera þannig, alls ekki. Við erum alveg í nógu góðu standi og með nógu stóran hóp til að skipta ef menn eru þreyttir. Þannig að það er ekki skýringin, við erum með fulla orku og það á ekki að vera hugarfarið að hvíla eða spara þig í einhverjum leik.“

„Við vissum að við værum að mæta hörkuliði sem er í toppnum og þú hefur ekkert efni á því að spara þig í þannig leikjum. Ég ætla rétt að vona að menn hafi ekki verið að spara sig,“ bætti Sölvi við en Víkingur og Breiðablik eru nú jöfn að stigum á toppi Bestu deildarinnar eftir sigur Blika á Fram í Kópavoginum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×