Enski boltinn

Sterling ekki heldur í hóp hjá Chelsea í Sambandsdeildinni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Raheem Sterling virðist ekki vera í náðinni hjá nýja stjóranum Enzo Maresca. 
Raheem Sterling virðist ekki vera í náðinni hjá nýja stjóranum Enzo Maresca.  James Gill - Danehouse/Getty Images

Raheem Sterling var ekki tilnefndur í leikmannahóp Chelsea fyrir umspilsleik í Sambandsdeildinni gegn Servette á morgun.

Framtíð Sterling hjá félaginu er í hættu. Hann var ekki heldur í hóp þegar Chelsea spilaði fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag gegn Manchester City.

Þá sendi Sterling frá sér yfirlýsingu þar sem hann krafðist svara og skýringar á hlutverki sínu hjá félaginu. Knattspyrnusérfræðingar ytra sögðu Sterling vera að bregðast liðsfélögum sínum.

Sterling var ekki sá eini sem var ekki tilnefndur í leikdagshópinn, Chelsea er nefnilega með 42 leikmenn á skrá og því engin leið að útnefna alla. Leikmannahópurinn er meira að segja orðinn svo stór að ráðast þurfti í framkvæmdir á æfingasvæði félagsins svo allir kæmust fyrir.

Enzo Maresca, nýr knattspyrnustjóri Chelsea, sagði á sunnudaginn að hann hefði viljað hafa Sterling í hópnum, en hann hefði líka viljað hafa hina leikmennina. Það sé einfaldlega ekki pláss fyrir þá.

Framundan er tveggja leikja umspilseinvígi við Servette sem Sterling mun ekki taka þátt í en hann gæti verið tilnefndur í leikmannahópinn ef liðið kemst áfram í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

Þá þykir líklegra að Sterling fari frá félaginu, honum virðist ekki ætlað stórt hlutverk hjá Chelsea, sem hefur bætt við sig ellefu leikmönnum í sumar og er að reyna að losa menn af launaskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×