Sport

Neyðarmótið kom Þuríði Erlu inn á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þuríður Erla Helgadóttir keppir á Norðurlandamótinu á næstunni, Evrópumótinu á næsta ári og mögulega heimsmeistaramótinu seinna á þessu ári.
Þuríður Erla Helgadóttir keppir á Norðurlandamótinu á næstunni, Evrópumótinu á næsta ári og mögulega heimsmeistaramótinu seinna á þessu ári. @thurihelgadottir

CrossFit- og lyftingakonan Þuríður Erla Helgadóttir tryggði sér farseðilinn á tvö stór lyftingamót á dögunum.

Þuríður Erla tók þátt í litlu lyftingamóti um síðustu helgi og upp fóru 80 kíló í snörun og 103 í jafnhendingu.

„Í fyrsta sinn frá því að ég keppti fyrst í ólympískum lyftingum árið 2011 þá var ég ekki með gildan árangur vegna nýrra reglna. Það var því skipulagt neyðarmót fyrir þá sem höfðu ekki skráðan árangur á síðustu sex mánuðum. Þetta var gert svo að við ættum möguleika á því að tryggja okkar sæti á Norðurlandamótinu í október,“ skrifaði Þuríður Erla á samfélagsmiðla sína.

Hún gerði gott betur en að tryggja sér farseðilinn á Norðurlandamótið.

„Með því að ná 183 kílóum í heildina þá tryggði ég mér sætið á NM og náði um leið lágmörkum á Evrópumótið á næsta ári. Á næstu tveimur mótum þarf ég síðan að lyfta minnst 187 kílóum í heildina til að tryggja mér farseðilinn á heimsmeistaramótið í desember,“ skrifaði Þuríður.

Þuríður Erla á öll Íslandsmetin í 59 kílóa flokknum. Hún hefur mest lyft 87 kílóum í snörun (Evrópumeistaramót 2019), 108 kílóum í jafnhendingu (Evrópumeistaramót 2021) og 191 kílói í samanlögðu (Evrópumeistaramót 2021).

Færsla Þuríðar Erlu Helgadóttur á Instagram síðu hennar.@thurihelgadottir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×