Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir spána lofa eins góðu og hægt er að vonast eftir miðað við sumarið sem líður. Norðanátt verði á morgun og 3-10 m/s og 8-10 gráðu hita.
„Ætli verði ekki bara sól,“ segir Björn.
Eftir því sem á kvöldið líður kólnar örlítið en samhliða því dregur úr vindi. Áfram verður norðanátt með 5-6 metrum á sekúndu og um sjö stiga hita um nóttina. Engin úrkoma er í kortunum.
Lægð er nú stödd norðaustur af landinu og liggur frá henni allhvass eða hvass norðan vindstrengur á vesturhelmingi landsins, en yfirleitt hægari austantil. Lægðin veldur einnig talsverðri úrkomu á Norðurlandi og vestur á fjörðum. Varasamt ferðaveður er á þessum slóðum og eru gular viðvaranir vegna úrhellsi og hvassviðris í gildi á norðan- og vestanverðu landinu fram á kvöld.