Á sunnudagskvöldið hóf göngu sína þriðja þáttaröðin af Tónlistarmönnunum okkar í umsjón Auðuns Blöndal. Í fyrsta þættinum fá áhorfendur að kynnast stórsöngvaranum Herberti Guðmundssyni þar sem farið er ítarlega yfir ferilinn hans og lífshlaup.
Herbert hefur gengið í gegnum margt á sinni lífsleið. Hann sat inni í nokkra mánuði fyrir fíkniefnainnflutning á sínum tíma. Þá varð hann síðar gjaldþrota þegar nokkuð þekkt þakdeilumál kom upp. Málið snerist um að Herbert og eiginkona hans neituðu að klæða þakið á raðhúsi sínu í Breiðholtinu.
Borinn út
Nágrannar hans í raðhúsalengjunni voru hins vegar á því að aðgerðin í heild sinni væri nauðsynleg og stofnuðu húsfélag til að halda utan um framkvæmdina. Herbert benti á að ekkert væri að sínu þaki enda hefði hann látið gera við það nokkrum árum fyrr og því óþarfi að klæða það að nýju.
„Erfiðasta tímabilið er í raun og vera þegar ég tapa þakmálinu, er borinn út úr húsinu og konan labbar út. Þannig að konan er farin, húsið er farið og ég gjaldþrota,“ segir Herbert og heldur áfram.
„Ég stend bara þarna upp á miðjum aldri allslaus og það var erfiður tími,“ segir Herbert en hér að neðan má sjá brot úr fyrsta þættinum í seríunni sem er á dagskrá á Stöð 2 á sunnudagskvöldum.