Árásarmaðurinn er sagður hafa komið að landamærunum Jórdaníumegin akandi á jeppa, stigið út úr honum og hafið skothríð. Öryggissveitir hafi skotið árásarmanninn til bana. Stjórnvöld í Jórdaníu rannsaka árásina, sem Ísraelsmenn hafa lýst sem hryðjuverki. Þetta er fyrsta árásin sem gerð er á landamærunum frá því stríð Ísraelsmanna og Hamas hófst 7. október.
Næstráðandi hjá björgunarsveitum á Gasa og fjögur skyldmenni hans létust í loftárás Ísraelsmanna á íbúðarhús í borginni Jabalia á Norður-Gasa í dag. Björgunarsveitirnar segja í tilkynningu að nú hafi 83 meðlimir sveitanna látist frá upphafi stríðs.
Þá hafa fregnir einnig borist af sprengjuárásum á úthverfi Gasaborgar, í grennd við Jabalia. Viðbragðsaðilar lýsa því að örvæntingaróp berist frá fólki sem fast er undir húsarústum en engin leið sé að ná til þess.