Caitlin Clark setti persónulegt stigamet í einum leik með 35 stigum, þau dugðu einnig til að slá met sem hafði staðið síðan 2006 fyrir flest stig skoruð af nýliða í deildinni. Hún hefur farið sem stormsveipur um WNBA deildina vestanhafs á sínu fyrsta tímabili og sett hvert metið á fætur öðru.
Vinsældir deildarinnar hafa einnig aukist gífurlega hratt og aðsókn á leiki deildarinnar aukist til muna og er það leikmönnum á borð við Caitlin Clark, og erkifjanda hennar Angel Reese, ekki síst að þakka.
Áhorfspartí í Minigarðinum
Til að vekja athygli á kvennaíþróttum og taka þátt í meðbyrnum sem blæs um þessar mundir var ákveðið að halda áhorfspartí í Minigarðinum. Helena Sverrisdóttur, fyrrum landsliðskona í körfubolta, og Silja Úlfarsdóttir, fyrrum afrekskona í frjálsíþróttum, stóðu fyrir viðburðinum.
„Það var svolítið gaman, þegar Helena kom í hlaðvarpið til mín vorum við að velta fyrir okkur hvort fólk hefði áhuga á WNBA. Ég myndi segja að við vitum svarið í dag,“ sagði Silja þegar fréttastofu bar að rétt fyrir leik í gærkvöldi.
„Ég held að [áhorfið á kvennaíþróttir] gæti verið miklu betra, en við sýnum það með kvöldinu í kvöld að áhuginn er til staðar og það vantar kannski meira framboð. Vonandi verður þetta viðburður sem kveikir einhvern neista,“ sagði Helena þá.
Innslagið úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.