Erlent

Ísraelar gera um­fangs­miklar loft­á­rásir á skot­mörk í Líbanon

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Konur lesa Kóraninn við grafir fallinna liðsmanna Hezbollah í úthverfi Líbanon.
Konur lesa Kóraninn við grafir fallinna liðsmanna Hezbollah í úthverfi Líbanon. AP/Hussein Malla

Herþotur Ísraelshers gerðu árásir á fjölda skotmarka í suðurhluta Líbanon í gærkvöldi, aðeins klukkustundum eftir að Hassan Nasrallah, leiðtogi Hezbollah, hét hefndum fyrir sprengingar símboða og talstöðva liðsmanna samtakanna.

Ísraelsher sagðist meðal annars hafa hæft hundruð eldflaugastæða, sem Hezbollah hefði ætlað að nota í náinni framtíð. Reuters hefur eftir heimildarmönnum í Líbanon að um hafi verið að ræða umfangsmestu loftárásir Ísraela gegn Hezbolla frá því að átök brutust út 7. október í fyrra.

Nasrallah hótaði, sem fyrr segir, hefndum gegn Ísrael í gær, „þar sem menn ættu von á því og þar sem menn ættu ekki von á því“. Alls 37 létust og um 3.200 slösuðust þegar símboðar og talstöðvar notaðar af Hezbollah sprungu á þriðjudag og miðvikudag.

Börn voru meðal látinna og slasaðra.

Ísraelar hafa ekki lýst ábyrgðinni á hendur sér en höfðu áður gefið það út að markmið þeirra í yfirstandandi hernaðaraðgerðum hefðu verið útvíkkuð frá því að tortíma Hamas á Gasa og miðuðu nú einnig að því að koma íbúum í norðurhluta landsins aftur heim, sem hefðu þurft að flýja vegna árása Hezbollah.

Nasrallah viðurkenndi að sprengingarnar í vikunni hefðu verið mikið áfall fyrir Hezbollah. Hann sagði að farið hefði verið yfir allar „rauðar línur“, lög og siðferði.

Háttsettir sendifulltrúar Bandaríkjanna, Bretlands, Þýskalands, Frakklands og Ítalíu funduðu í París í gær. Von er á Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þangað í dag en hann hefur dvalið í Kaíró að ræða mögulegt vopnahlé á Gasa.

Talsmaður Joe Biden Bandaríkjaforseta sagði forsetann enn telja möguleika á að ná fram vopnahléi en Hvíta húsið hefur varað alla aðila við því að grípa til stigmögnunar. Ástandið er þó afar viðkvæmt eftir sprengingarnar í vikunni og yfirlýsingar Ísraels um „nýjan fasa“ hernaðaraðgerða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×