Fram verður meðal annars án Alex Freys Elíssonar sem hefur farið mikinn með Frömurum í undanförnum leikjum. Hann fékk sitt tíunda gula spjald í sumar í 2-0 sigri Fram á Fylki um helgina og verður ekki með. Þetta er því í þriðja sinn sem Alex missir af leik vegna uppsafnaðra spjalda.
Guðmundur Magnússon og Þorri Stefán Þorbjörnsson fengu sitt fjórða gula spjald í leiknum og verða einnig í banni þegar Fram mætir KR á sunnudag.
Silas Songani, leikmaður Vestra, var þá einnig dæmdur í eins leiks bann vegna uppsafnaðra spjalda á reglubundnum fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í dag. Hann missir af mikilvægum leik Vestra við HK á sunnudag.