Erlent

Loft­á­rásir á meint vopna­búr Hez­bollah í Beirút

Kjartan Kjartansson skrifar
Svartur reykur yfir úthverfi í sunnanverðri Beirút í kvöld. Ísraelar héldu loftárásum sínum þar áfram.
Svartur reykur yfir úthverfi í sunnanverðri Beirút í kvöld. Ísraelar héldu loftárásum sínum þar áfram. AP/Hassan Ammar

Ísraelsher segir að áframhaldandi loftárásir á Beirút í kvöld beinist að vopnabúrum Hezbollah-samtakanna undir íbúðarblokkum. Óljóst er hvort að leiðtogi samtakanna sé lífs eða liðinn eftir árásir Ísraela fyrr í dag.

Íbúar í nágrenni við þrjár byggingar í úthverfi suður af Beirút fengu skilaboð frá Ísraelsher um að koma sér að minnsta kosti fimm hundruð metra frá þeim í kvöld. Reuters-fréttastofan segir að þetta sé fyrsta tilkynning sinnar tegundar á þessu svæði.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir Ísraelsher að Hezbollah-samtökin geymi vopn undir íbúðarbyggingunum sem hann gerði loftárásir á í kvöld. Hætta væri á því að hús hryndu í sprengingum af völdum flugskeyta.

Fréttaritari BBC í Beirút segir að þykkur reykur stígi nú upp frá Dahieh-hverfi borgarinnar. Það er höfuðvígi Hezbollah í borginni. Íbúar þar búi sig undir langa nótt.

Heilbrigðisráðuneyti Líbanons segir að í það minnsta sex hafi fallið í loftárásum Ísraeal á sunnanverða Beirút í dag. Að minnsta kosti 91 hafi særst. Áfram sé leitað í rústum húsa í Dahieh.

Árásir dagsins beindust að forystu Hezbollah, þar á meðal Sayyed Hassan Nasrallah, leiðtoga samtakanna. Engar staðfestar fréttir hafa borist af örlögum hans. Heimildarmaður Reuters með tengsl við Hezbollah fullyrðir að Nasrallah sé á lífi og írönsk ríkisfréttastofa sömuleiðis. Miðlar Hezbollah hafa ekkert gefið uppi um hvort Nasrallah sé lífs eða liðinn.

Fleiri en sjö hundruð manns hafa fallið í loftárásum Ísraela á Líbanon í vikunni. Ísraelar segjast ætla að halda árásunum áfram þar til þeir vinna fullnaðarsigur á Hezbollah sem hefur staðið fyrir flugskeytaárásum á Ísrael.


Tengdar fréttir

Gerðu umfangsmikla atlögu að leiðtoga Hezbollah

Ísraelski herinn gerði fyrir skömmu umfangsmiklar árásir á suðurhluta Beirút í Líbanon, sem sagðar eru hafa beinst að höfuðstöðvum Hezbollah-samtakanna og Hassan Nasrallah, leiðtoga þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×