Hægfara lægð á Grænlandshafi stjórnar veðrinu í dag þar sem áttin verður suðvestlæg, yfirleitt gola eða kaldi og rigning með köflum. Þó má gera ráð fyrir að þurrt verði að mestu á Suðaustur- og Austurlandi fram undir kvöld.
Í hugleiðingum veðurfræðings segir að hiti verði víða á bilinu fimm til ellefu stig. Í kvöld snýst svo í vaxandi norðaustanátt við norðurströndina.
„Norðaustan 8-15 m/s á morgun og áfram vætusamt, en snjókoma á heiðum norðaustanlands. Eftir hádegi dregur smám saman úr úrkomu í flestum landshlutum og það bætir í vind syðst á landinu. Hiti 1 til 9 stig að deginum, mildast suðvestantil.
Norðaustan og austan kaldi eða strekkingur á föstudag, en hvassviðri syðst á landinu. Skýjað og úrkomulítið austanlands, en á vesturhelmingi landsins er útlit fyrir bjart og fallegt veður,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Norðaustan 8-15 m/s. Rigning með köflum, en snjókoma á heiðum norðaustanlands. Úrkomuminna seinnipartinn og bætir í vind syðst á landinu. Hiti 1 til 8 stig að deginum, mildast suðvestantil.
Á föstudag: Norðaustan og austan 8-15, en 13-20 syðst. Skýjað austanlands og úrkomulítið, en bjart að mestu á vesturhelmingi landsins. Hiti breytist lítið.
Á laugardag: Norðaustan og austan 8-15, en hvassara við suðausturströndina. Skýjað og líkur á stöku éljum, en víða þurrt og bjart á Suður- og Vesturlandi. Hiti 0 til 7 stig yfir daginn, mildast suðvestanlands.
Á sunnudag og mánudag: Ákveðin norðaustanátt og dálítil él, en bjartviðri sunnan- og vestantil. Hiti 0 til 6 stig.
Á þriðjudag: Norðlæg átt og él, en þurrt sunnan heiða. Kólnar heldur.