Í samantekt yfir stjórnvaldsákvarðanir á sviði eftirlits með dýravelferð og matvælaframleiðslu í september á vef Matvælastofnunar segir að eigandinn hafi ákveðið að aflífa veikan hund sinn sjálfur með byssuskoti. Það hafi verið gert úti á landi.
Dýralæknar megi einir aflífa
Dýralæknum einum sé heimilt að aflífa gæludýr nema í neyðartilfellum, sem hafi ekki átt við í tilfelli hundsins. Því hafi stjórnvaldssekt að upphæð 230 þúsund krónur verið lögð á eiganda hundsins.
Þá segir einnig frá því að dagsektir upp á tíu þúsund krónur hafi verið lagðar á eiganda hrossa á Norðurlandi eystra. Hann hafi ekki sinnt fyrirmælum MAST um að draga úr slysahættu fyrir hrossin og bæta hófhirðu.
Loks segir frá því að kúabú á Suðurlandi hafi verið svipt mjólkursöluleyfi vegna lélegra mjólkurgæða.
Veistu meira um málið? Fréttastofa tekur við ábendingum á netfangið ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.