Íslenski boltinn

Stúkan: Stór­kost­leg af­greiðsla nema litli fuglinn hafi rétt fyrir sér

Sindri Sverrisson skrifar
Baldur Sigurðsson og Atli Viðar Björnsson fóru yfir málin í nýjasta þætti Stúkunnar.
Baldur Sigurðsson og Atli Viðar Björnsson fóru yfir málin í nýjasta þætti Stúkunnar. Stöð 2 Sport

„Þetta er hundrað prósent afgreiðsla. Þetta er viljandi,“ sagði Baldur Sigurðsson um magnað mark Andra Rúnars Bjarnasonar fyrir Vestra í sigrinum gegn Fram í Bestu deildinni í fótbolta.

Andri Rúnar skoraði nánast frá endalínunni, í boga yfir Ólaf Íshólm Ólafsson í marki Fram.

Markið var skoðað í Stúkunni á Stöð 2 Sport og hægt er að sjá umræðuna um það hér að neðan.

Klippa: Umræða um mark Andra Rúnars

Atli Viðar Björnsson var ekki alveg eins sannfærður og Baldur um að markmið Andra Rúnars hefði verið að skora, frekar en að gefa fyrirgjöf:

„Ég er aðeins á báðum áttum. Sóknin er náttúrulega frábær, þeir líta út eins og Barcelona þarna gegn Fram-liðinu….

Í viðtali við Fótbolta.net segir Andri Rúnar að hann hafi séð Ólaf Íshólm hafa farið 3-4 metra út frá línunni. Óli Íshólm stendur náttúrulega bara á línunni.

Ef hann er að reyna þetta er þetta náttúrulega stórkostleg afgreiðsla. En sjáið Jeppe Pedersen, hann er mættur á fjærstöngina. Lítill partur af mér trúir því að Andri hafi séð hlaupið hans og verið að gefa í svæðið á fjærstönginni, fyrir Jeppe að ráðast á þetta,“ sagði Atli Viðar og bætti við:

„En ef hann er að reyna þetta er slúttið stórkostlegt. Það er samt lítill fugl sem slær efasemdaröddum í hausinn á mér.“

Hvort sem hann ætlaði sér að skora sjálfur eða ekki þá hefur Andri Rúnar núna skorað fimm mörk í þremur leikjum í úrslitakeppni neðri hluta Bestu deildarinnar, og reynst Vestra afar mikilvægur í baráttunni fyrir lífi sínu í deildinni. Hann hefur alls skorað átta mörk fyrir liðið í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×