Tilkynnt var um eldsvoða á Stuðlum klukkan tuttugu mínútur í sjö í gærmorgun. Klukkan sex í gær barst svo yfirlýsing, þar sem greint var frá því að barn hefði látist í eldsvoðanum.
Funi Sigurðsson framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu baðst undan viðtali þegar fréttastofa náði tali af honum í morgun. Í dag verði reynt að taka utan um starfshópinn og fundið út úr því hvar eigi að hýsa börn.
Gert hefur verið samkomulag við SÁÁ um tímabundin afnot af húsnæði á Vogi til að bregðast við stöðunni. Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir er forstjóri SÁÁ.
„Okkar aðkoma er sú að við veitum húsaskjól, þannig að nú eru starfsmenn Barna- og fjölskyldustofu með álmu á Vogi sem hægt er að aðskilja frá annarri starfsemi, þannig að þau flytja inn með sína starfsemi tímabundið,“ segir Ragnheiður.
Ekki þurfti að senda neinn heim af Vogi til að taka á móti Stuðlahópnum; hann fékk ungmennagang Vogs og ungmennin voru færð annað. Báðir hópar eru aðskildir öðrum á Vogi. Stuðlahópurinn gisti á Vogi í nótt.
„Um leið og við fengum fregnir af þessu, þá fórum við strax í það og vorum með aðstöðu klára innan nokkurra klukkutíma,“ segir Ragnheiður.
Og það var væntanlega aldrei spurning um að rétta þarna fram hjálparhönd?
„Nei, þegar um er að ræða börn í svona stöðu þá bregst maður við um leið og maður getur.“