Hún segir starfsfólk flest vinna uppsagnarfrest sinn út þennan mánuð en einhverjir haldi áfram að vinna fyrir þau í kvikmyndahúsum þeirra í bænum.
„Síðasta sýningin var í kvöld og síðustu gestirnir eru farnir, sorgmæddir,“ segir Guðný en hún hefur lengi unnið í kvikmyndahúsinu.
„Þetta er fjölskyldufyrirtæki. Salurinn Ásberg í Kringlunni er nefndur eftir langafa mínum,“ segir Guðný en salurinn var opnaður árið 2023 og er talinn einn fullkomnasti kvikmyndasalur á Íslandi.

Hún segir að ákveðið hafi verið að skella í lás vegna dræmrar aðsóknar . Flestir á Suðurnesjum sæki þessa þjónustu í bænum. Fyrst var greint frá lokuninni á vef Víkurfrétta.
Er þetta erfitt kvöld?
„Já, það fylgja þessu miklar tilfinningar.“

Hún segir enn óákveðið hvað verði gert við búnaðinn. Á vef Sambíóanna segir að salur 1 í kvikmyndahúsinu hafi verið endurreistur árið 1998 og salur 2 svo byggður árið 2001. Myndirnar sem voru sýndar í kvikmyndahúsinu í kvöld voru Venom: The Last Dance og Smile 2.
„Ég vil þakka Suðurnesjafólki fyrir stuðninginn. Við erum svo auðvitað alltaf opin áfram í bænum,“ segir Guðný að lokum.

Kvikmyndahúsið á Akureyri til sölu
Rekstur kvikmyndahússins í Keflavík er ekki sá eini sem hefur gengið erfiðlega. Í sumar var greint frá því að rekstur kvikmyndahússins á Akureyri væri til sölu. Reksturinn er enn skráður til sölu á fasteignavef Vísis fyrir 280 milljónir.