Á fimmta tug barna af leikskólanum Mánagarði hafa greinst með E. coli-sýkingu síðustu daga. Bakterían kom úr hakki sem var matreitt í leikskólanum nokkrum dögum áður en börnin fóru að veikjast. Nokkur barnanna hafa verið lögð inn á gjörgæslu vegna veikindanna og sem stendur er eitt barn í öndunarvél.
Barnabarn Önnu Láru Pálsdóttur er meðal barnanna sem hefur legið inni á barnaspítalanum síðustu daga.
„Það er hræðilegt að horfa upp á barnið svona veikt. Það er hræðilegt að horfa upp á dóttur mína og manninn hennar svo ótrúlega buguð og hrædd,“ segir Anna Lára.
Hefur áhrif á alla fjölskylduna
Þrátt fyrir að veikindin séu mjög alvarleg hefur barnabarn hennar sloppið við að fara inn á gjörgæslu. Þetta hefur haft mikil áhrif á fjölskylduna.
„Þau eru ofboðslega hrædd og brotin. þau hafa ekki matarlyst og sofa illa. Ég fór þarna og vakti yfir þeim eina nótt bara svo dóttir mín myndi ná að sofa,“ segir Anna Lára.
Fimm ár og enn að jafna sig
Börn verða misveik af sýkingunni en hún getur haft langvarandi áhrif á þá sem smitast. Dóttir Áslaugar Fjólu Magnúsdóttur smitaðist í Efstadal II árið 2019. Þá var hún þriggja ára gömul og er enn fimm árum síðar að glíma við eftirköstin og þurfti meðal annars að læra að ganga upp á nýtt.
„Þetta situr með manni alla daga. Hún hefur verið með mikið af eftirköstum. Meðal annars daglega magaverki og ristilverki. Ýmislegt annað. Hún er mjög viðkvæm fyrir öllu áreiti, bakterían fer líka í miðtaugakerfið hjá henni,“ segir Áslaug.
Þær telja fólk oft ekki átta sig á hversu alvarleg veikindin eru. Áslaug stofnaði stuðningshóp fyrir aðstandendur barna sem smitast af E. coli til að foreldrar þurfi ekki að ganga einir í gegnum erfiðleikana.
„Þetta eru ofboðslegar kvalir sem börnin þurfa að þola. Þessi blóðugi niðurgangur, þetta er bara rosalegt að horfa upp á,“ segir Áslaug.
Lærum af reynslunni
Þær vilja að matvælaöryggi sé bætt til muna, sérstaklega þegar viðkvæmir hópar eiga í hlut.
„Ég veit alveg að hlutir geta gerst. Og ég vil ekki fara að hengja einhvern bakara eða smið eða matráð eða neitt svoleiðis. Þetta bara gerðist. En mér finnst að við þurfum að læra af þessu svo þetta gerist ekki aftur. Þessi mál verði skoðuð algjörlega niður í kjölinn,“ segir Anna Lára.