Þetta var þriðji leikur Inter Miami og Atlanta United en bæði lið höfðu unnið sitthvorn 2-1 sigurinn í fyrri leikjum. Inter varð deildarmeistari með sannfærandi hætti og þetta eru því ein óvæntustu úrslitin í sögu úrslitakeppni MLS.
Lionel Messi virtist þó hafa bjargað Inter liðinu þegar hann jafnaði metin í 2-2 en Atlanta United tryggði sér sigur og sæti í undanúrslitum deildanna með marki Bartosz Slisz á 76. mínútu.
Atlanta skoraði sigurmarkið á meðan varnarmaður Inter lá í vítateignum og liðsfélegar hans sóttust eftir því að fá vítaspyrnu. Ekkert var dæmt og Atlanta United refsaði þeim hinum megin á vellinum.
Matías Rojas kom Miami yfir í leiknum á 17. mínútu en Atlanta svaraði með tveimur mörkum frá Jamal Thiaré á næstu fjórum mínútum. Messi jafnaði metin á 65. mínútu en sigurmakrið kom ellefu mínútum síðar.
Inter Miami var með yfir þrjú í xG (áætluð mörk), var 64 prósent með boltann og reyndi 25 skot að marki Atlanta. Allt kom fyrir ekki og tímabilið er á enda hjá Messi og félögum.
Dagur Dan Þórhallsson og félagar í Orlando City komust áfram úr sínu einvígi en þurftu vítakeppni til að vinna Charlotte. Bæði lið höfðu unnið einn leik hvort fyrir þennan oddaleik.
Dagur Dan var í byrjunarliðinu en var tekinn af velli á 79. mínútu. Charlotte komst yfir á 81. mínútu en Facundo Torres jafnaði metin fyrir Orlando á tólftu mínútu í uppbótatíma þegar hann fylgdi á eftir eigin vítaspyrnu sem var varin.
Orlando menn nýttu allar fjórar vítaspyrnur sínar í vítakeppninni en Charlotte klikkaði á tveimur fyrstu sínum og fékk á endanum aðeins að taka þrjár spyrnur því úrslitin voru ráðin.
Orlando City mætir Atlanta United í undanúrslitum Austurdeildarinnar.