Ísland mætir Kanada og Danmörku á Pinatar á Spáni síðar í mánuðinum en leikirnir eru liður í undirbúningi fyrir EM í Sviss næsta sumar. Ísland tryggði sig beint á mótið með frábærum árangri í undankeppninni en umspil stendur nú yfir um sætin sjö sem laus eru. Þorsteinn segir gott að vera laus við stressið sem fylgir því.
„Það er ekkert hægt neita því að þú vilt losna við að fara í þetta umspil. Það var alveg mikill léttir fyrir okkur að klára þetta bara í sumar. Það hjálpar okkur held ég líka. Við spiluðum við Bandaríkin um daginn og svo fáum við tvo hörkuandstæðinga núna. Það er góður undirbúningur undir Þjóðadeildina og lokakeppni EM. Þessir leikir hjálpa okkur í þróun og bætingu á liðinu,“ segir Þorsteinn í samtali við Stöð 2.
Sveindís Jane Jónsdóttir er lykilleikmaður í íslenska liðinu en hefur verið úti í kuldanum hjá félagi sínu Wolfsburg á leiktíðinni. Hún hefur aðeins byrjað einn deildarleik og var þá tekin snemma af velli þegar hún fékk fágætt byrjunarliðssæti í Meistaradeild Evrópu í miðri viku.

Er ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu hennar hjá þýska stórliðinu?
„Nei, ekki eins og er. Vonandi er þetta bara tímabil sem hún gengur í gegnum núna að spila minna. Vonandi vinnur hún sig inn í þetta og fær fleiri mínútur. Þetta er eitthvað sem maður getur ekki stjórnað en í sjálfu sér er þetta ekkert þannig áhyggjuefni eins og staðan er í dag. Vonandi spilar hún bara meira eftir því sem fram líður á þetta á keppnistímabil,“ segir Þorsteinn.
Fleira kemur fram í viðtalinu við Þorstein sem má sjá í heild sinni hér að neðan.