Marktækur munur er á afstöðu fólks eftir aldri og hvaða flokk hinir aðspurðu segjast ætla að kjósa. 69,1% kjósenda á aldursbilinu 18 til 29 ára telja að stjórnvöld geri of lítið en hlutfallið er 49,2% meðal elsta hópsins, 60 ára og eldri. Greint er frá niðurstöðunum í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands en spurningin lögð fyrir könnunarhóp Maskínu.
54,7% svarenda á aldrinum 30 til 39 ára sögðu að stjórnvöld gerðu of lítið, 51,2% meðal 40 til 49 ára, og 44,7% meðal 50 til 59 ára.

Meirihluti stuðningsmanna Miðflokks telur stjórnvöld hafa gert of mikið
Afstaða fólks reyndist mjög misjöfn eftir því hvaða stjórnmálaflokk hinir aðspurðu sögðust ætla að kjósa. Þannig telja 54,5% þeirra sem ætla að kjósa Miðflokkinn að stjórnvöld geri of mikið. Hið sama gildir um 33% þeirra sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Á sama tíma telur helmingur þeirra sem ætla að kjósa Flokk fólksins (49,9%) að stjórnvöld geri of lítið. Hlutfall þeirra sem telja að stjórnvöld geri of lítið er hæst hjá þeim sem ætla að kjósa Pírata (97%). Næst koma Vinstri græn (88%), Sósíalistaflokkurinn (84%), Samfylkingin (75,5%), Viðreisn (69%), Flokkur fólksins (50%), Framsókn (48%), Miðflokkurinn (17%) og Sjálfstæðisflokkurinn (15%).
Könnunin var gerð fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands og spurningin lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu frá 22. til 28. október 2024. Voru svarendur 1.864 talsins. Að sögn Maskínu voru svarendur íbúar á landsvísu á aldrinum 18 ára og eldri. Svör hafi verið vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar um kyn, aldur, búsetu og menntun svo þau endurspegli þjóðina.