Fótbolti

Hin 38 ára Marta gerði tvær að fíflum með ótrú­legu marki

Sindri Sverrisson skrifar
Marta á ferðinni með boltann í sigrinum sæta gegn Kansas City Current í gær.
Marta á ferðinni með boltann í sigrinum sæta gegn Kansas City Current í gær. Getty/Dustin Markland

Brasilíska goðsögnin Marta er enn mögnuð í fótbolta, orðin 38 ára gömul, og hún skoraði stórkostlegt sigurmark fyrir Orlando Pride þegar liðið vann 3-2 sigur gegn Kansas City.

Mark Mörtu var ekki bara stórkostlegt heldur skilaði það Orlando í úrslitaleik bandarísku úrvalsdeildarinnar í fyrsta sinn.

Markið má sjá hér að neðan en Marta skoraði það eftir hreint ótrúlegan sprett, þar sem hún fíflaði meðal annars tvo varnarmenn upp úr skónum með einni og sömu hreyfingunni, og lék svo einnig á markvörð Kansas.

Bandaríska landsliðskonan Alana Cook og Kayla Sharples vilja eflaust gleyma leiknum sem fyrst því það voru þær sem lágu eftir á grasinu eftir gabbhreyfingu Mörtu.

Marta skoraði þarna sitt ellefta mark á leiktíðinni og í þriðja leiknum í röð. Hún kom Orlando í 3-1 á 82. mínútu og mark Vanessu DiBernardo í uppbótartíma dugði því Kansas ekki til að jafna metin.

Debinha hafði komið Kansas yfir á 33. mínútu en Haley McCutcheon og hin sambíska Barbra Banda sáu til þess að Orlando kæmist yfir snemma í seinni hálfleik. Mark Banda var snoturt, þó það félli óneitanlega í skuggann á marki Mörtu.

Eins og fyrr segir er Orlando, sem Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir lék áður með, nú komið í úrslitaleikinn um bandaríska meistaratitilinn í fyrsta sinn, eftir að hafa einnig unnið deildarkeppnina í fyrsta sinn.

Liðið mætir Washington Spirit í úrslitaleiknum næstkomandi laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×