Fótbolti

Utan vallar: Til­viljanirnar verða vart ótrú­legri | Ég skammaðist mín

Aron Guðmundsson skrifar
Frá leik Íslands gegn Svartfjallalandi
Frá leik Íslands gegn Svartfjallalandi Vísir/Getty

Til­viljanirnar í þessu lífi eru oft á tíðum ansi ótrú­legar. Því komst undir­ritaður meðal annars að eftir leik Ís­lands og Svart­fjalla­lands í Þjóða­deild UEFA í Niksic á laugar­daginn síðastliðinn. Lífslexía segi ég en einnig fallegur vitnisburður um íslenskan fótbolta og tengingarnar sem geta myndast út frá honum.

Eftir leik hafði ég bókað leigu­bíl fyrir mig sem og aðra úr fjölmiðla­t­eymi Stöðvar 2 Sport frá Niksic yfir til höfuð­borgarinnar Podgori­ca þar sem að við gistum. Klukkutíma keyrsla, klukkan orðin margt og hungrið farið að segja til sín þar sem að Svart­fellingarnir voru ekki í því að bjóða upp á þurrt né vott á meðan á leik stóð.

Leigu­bíllinn mætir á svæðið á til­settum tíma fyrir utan leik­vanginn. Loksins höldum við til Podgori­ca. Sé ég þá ekki mann koma hlaupandi að bílnum, segir að hann sé sinn og er með bókun fyrir því. Ég hafði verið í sam­skiptum við leigu­bíl­stjórann og hann stað­festi það en á ein­hvern undar­legan máta hafði bíllinn verið tvíbókaður.

Þarna stendur maður frammi fyrir ákvörðun. Langur dagur að baki og þú sérð hótelið í hyllingum eftir það sem að yrði klukku­stundar keyrsla aftur til Podgori­ca. Það tæki klukkutíma að fá annan bíl. Þeir sem mig þekkja vita hvaða mann ég hef að geyma. Sá maður var hins vegar ekki sjáan­legur á þessari stundu í Niksic. Þá og þegar tók yfir annað eðli hjá mér. Vina­legi Ís­firðingurinn vék fyrir ónærgætnum manni. Ég settist inn í bílinn, ferðafélögum mínum til mikillar undrunar og sagði: „hann verður bara að finna sér annan bíl.“ Þeir horfðu á mig og skildu ekki neitt í neinu.

Hart barist í leik Íslands og SvartfjallalandsVísir/Getty

Fjögur sæti, fimm ein­staklingar og ekki pláss fyrir okkur alla. Aldrei hef ég séð jafn undrandi leigu­bíl­stjóra og þarna. Hann botnaði ekki neitt í neinu. Á endanum kveikti ég á því að kollegar mínir á fót­bolti.net og mbl.is væru enn inni á leik­vanginum og ættu far seinna um kvöldið. Þar væri laust pláss aftur til Podgori­ca þar. Vina­legi Ís­firðingurinn átti endur­komu ársins og bauðst til þess að eftir­láta sæti sitt manninum sem rétti­lega átti heimtu á því að fara með bílnum aftur heim á hótel.

Ég kvaddi ferðafélagana og hélt aftur inn á leik­vanginn, þeir til Podgori­ca. Næsta klukku­stund átti eftir að verða þeim eftir­minni­leg. Klukku­stund sem ber þess merki hversu lítill heimurinn er. Klukku­stund sem átti eftir að verða þess valdandi að nagandi sam­visku­bit elti mann á röndum í kjölfarið.

Kemur ekki í ljós að ókunnugi maðurinn, sem er frá El Paso í Bandaríkjunum, er bú­settur á Ísafirði. Mínum heima­bæ! Þar býr hann og hefur stundað nám við Háskóla­setur Vest­fjarða. Hann er mikill stuðnings­maður knatt­spyrnu­liðs Vestra, eins og ég. Mætir á alla leiki liðsins, heima og að heiman. Meira en ég get nokkurn tímann sagt. Steinr­unnir ferðafélagar mínir trúði ekki sínum eigin augum þegar maðurinn rak sögu sína á leið þeirra frá Niksic til Podgori­ca. Heimurinn svo af­skap­lega lítill.

Brandon N. Piel heitir maðurinn og sá hefur fest rætur á Ísafirði eftir að hafa klárað nám sitt þar. Hann vinnur sem leiðsögu­maður fyrir vestan núna og hefur engan hug á því að flytja frá Ísafirði. Ég kalla hann með réttu Ís­firðing. Hverjar eru líkurnar á því að tveir Ís­firðingar, sem þekkjast ekki neitt, bóki sama leigu­bíl í Niksic í Svart­fjalla­landi? Frá sama stað að sama hóteli. Til­viljanirnar í þessu lífi eru stundum of ótrú­legar.

Hverjar eru líkurnar?

Ég þurfti að vita meira um Brandon, ást hans á ís­lenskum fót­bolta og um leið bað ég hann af­sökunar á því hversu ákveðinn ég var á einum tíma að vilja bara skilja hann eftir. Ég skammast mín.

„Mér þykir það leitt að þú hafir orðið eftir,“ segir Brandon þegar að ég slæ á þráðinn til hans og við byrjum að rabba sama. „Og hverjar eru líkurnar á því að við áttum báðir bókað far með þessum bíl?“

Erindi Brandon í Niksic þetta kvöld var að styðja við bakið á ís­lenska lands­liðinu í leik gegn Svart­fjalla­landi í Þjóða­deild UEFA. Leik sem vannst 2-0 en allt frá því að Brandon kom fyrst til Ís­lands hefur hann heillast af ís­lenskum fót­bolta. Er mikill stuðnings­maður lands­liðsins og Bestu deildar liðs Vestra.

Strákarnir stilla sér upp fyrir leikinn gegn SvartfjallalandiVísir/Getty

„Í fyrra keyptum ég og félagar mínir miða á alla heima­leiki Ís­lands í undan­keppni EM. Í sumar var svo fókusinn á leiki Vestra í Bestu deildinni og því hef ég ekki geta sótt leiki Ís­lands í Þjóða­deildinni til þessa því ég get ekki verið að fara til Reykja­víkur um hverja einustu helgi. Ég sá hins vegar að ég ætti mögu­leika á því að geta farið á úti­leik með liðinu annað hvort í Svart­fjalla­landi eða Wa­les. Ég ákvað að fara til Svart­fjalla­lands. Fannst það meira spennandi land að ferðast til.

Ég var mjög ánægður með sigurinn. Ís­land átti skilið að vinna þrátt fyrir slakan fyrri hálf­leik. Við græddum á því að Svart­fellingar fóru illa með sín færi. Há­kon varði vel í markinu og þá voru þeir mikið í því að hitta ekki á markrammann. Ég var bara einn í stúkunni þar sem að stuðnings­menn Ís­lands áttu að vera. Þeir sendu ein­hverja átta Þjóðverja til mín líka. Héldu ábyggi­lega að þeir væru ís­lenskir og svo voru tveir Svíar þarna um stutta stund. En ég var eini stuðnings­maðurinn í þessum hluta stúkunnar sem kom frá Ís­landi. Það voru átta öryggis­verðir að fylgjast með mér og á einum tíma­punkti kom undrandi lög­reglu­maður að mér og spurði hvort það væru ekki fleiri stuðnings­menn Ís­lands á leiðinni. Þeir voru þannig græjaðir að maður sá að þeir bjuggust við meiri fjölda.“

Ástin á Vestra og Ísafirði

Brandon, fæddur og upp­alinn í El Paso í Bandaríkjunum, flutti til Ísa­fjarðar árið 2021 og stundaði þar nám við Háskóla­setur Vest­fjarða.

Brandon (til vinstri) og Jamie Fletcher (til hægri) á Greifavellinum fyrr á árinu þar sem að KA tók á móti Vestra í Bestu deildinni

„Og eftir því sem ég hef orðið eldri hef ég alltaf fallið meira og meira fyrir fót­bolta. Æska mín í El Paso litaðist náttúru­lega af amerískum íþróttum á borð við amerískan fót­bolta sem og körfu­bolta. Ég á manni sem heitir Jamie Fletcher mikið að þakka fyrir að hafa vakið áhuga minn á fót­bolta. Hann hafði flutt til Ísa­fjarðar og byrjað að stunda nám við Háskóla­setrið þar þegar að ég flutti til Ísa­fjarðar. Jamie hafði farið á leiki með Vestra og bauð mér að koma með. Síðan hefur það bara undið upp á sig.“

Nú missa Brandon og Jamie eigin­leika ekki af leik hjá Vestra og eru þeir í hópi fimm nema við Háskóla­setur Vest­fjarða sem fylgja liðinu hvert á land sem er. Mæta á bæði heima- og úti­leiki og hafa gert undan­farin tvö tíma­bil.

„Það er gaman að heimsækja alla þessa velli, mæta á leiki Vestra gegn sögu­frægum ís­lenskum liðum. Maður sér leik­menn liðsins á förnum vegi hér á Ísafirði og mér finnst það gera þetta svo sér­stakt. Múrinn milli liðsins og stuðnings­manna, sem maður sér oft á tíðum er­lendis, er ekki til staðar hér. Manni finnst maður virki­lega vera að styðja sína menn, sitt bæjarfélag."

Vestri hélt sér uppi í Bestu deildinni sem nýliði í deildinni á nýafstöðnu tímabiliVísir/Viktor Freyr

„Ég er það heppinn að búa við ákveðinn sveigjan­leika varðandi mína at­vinnu yfir sumartímann. Það gerir mér kleift að sækja alla þessa leiki. Þetta er bara svo skemmti­legt. Því fleiri leiki sem maður sækir því mun meira heillaður verður maður af þessu. Um leið kynnumst við öðrum stuðnings­mönnum Vestra. Auðvitað kostar það sitt að ferðast um landið og elta liðið. En ég horfi ekki á þetta þannig að ég sé að eyða pening. Ég er að fjár­festa honum í eitt­hvað sem ég hef mikinn áhuga á og hef ástríðu fyrir.“

Stuðnings­menn sem skipa sér í fremsta flokk og á Ísafirði nýtur Brandon sín vel. Hvað er það sem heillar þar?

„Fólkið. Fyrst og fremst. Bæði heimafólkið sem og allir sem ég hef kynnst í tengslum við námið hjá Háskóla­setrinu. Þá elska ég tækifærin sem náttúran hér og um­hverfið gefur manni. Fólk eyðir fúlgum fjár til þess að komast hingað, fara á Horn­strandir og í alls konar göngur hérna í kring. Ég gert það á hverjum einasta degi vikunnar ókeypis. Ég er líka heillaður af bænum sjálfum og þeirri stað­reynd að allar nauð­synjar eru í göngufæri frá heimili mínu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×