Í tilkynningu frá landskjörstjórn segir að tekin verði ákvörðun um hvar og hvenær fundurinn verður haldinn, eins fljótt og unnt er og tilkynning þar um verði birt á vef landskjörstjórnar og á kosning.is.
Tilkynning verði jafnframt send til umboðsmanna þeirra stjórnmálasamtaka sem buðu fram við alþingiskosningarnar. Ástríður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri landskjörstjórnar, segir að beiðnin frá yfirkjörstjórn í Suðvesturkjördæmi snúi meðal annars að sautján ágreiningsatkvæðum frá sveitarfélögum kjördæmisins. Atkvæðin voru öll greidd utan kjörfundar.
Óskað hefur verið eftir endurtalningu í kjördæminu en formaður yfirkjörstjórnar hefur sagst hvorki geta hafnað né samþykkt beiðnir um endurtalningu atkvæða þar vegna breytinga sem voru gerðar á þingsköpum rétt fyrir kosningar.
Ástríður segist engu geta svarað um það hvort orðið verði við beiðni um endurtalningu eða ekki. Gestur Svavarsson formaður yfirkjörstjórnar í kjördæminu þurfi að svara því.