Greint er frá kaupunum í Viðskiptablaðinu. Þar kemur fram að Friðbert ætli að breyta húsnæðinu í sex íbúðir og að nýtt hverfisskipulag geri ráð fyrir að það megi. Þá segir að á næstu dögum muni tiltekt hefjast í húsinu. Búið er að koma fyrir gámi og er vinna hafin í eigninni.
Í sumar var fjallað um það að Hjallastefnan hefði sent fyrirspurn til skipulagsfulltrúa borgarinnar um eignina sem var svo vísað til verkefnastjóra samkvæmt fundargerð.
Í greinargerð kemur til dæmis fram að húsið sé byggt árið 1958 og sé tvílyft. Jákvætt var tekið í erindi Hjallastefnunnar en þó tekið fram að nauðsynlegt yrði að endurheimta lóð til að skapa leiksvæði fyrir börn í stað bílastæðis sem er þar núna.
51 milljón til borgarinnar
Á fundi borgarráðs þann 7. nóvember var svo lagt fyrir bréf frá fjármála- og áhættustýringarsviði borgarinnar um kaup á fasteigninni þar sem óskað var eftir því að borgarráð samþykkti tilboð Heklu fasteigna í kaup á 15 prósenta hlut borgarinnar í eigninni. Þar kom söluverðið fram og að hlutur borgarinnar yrði 51.165.000.