Erlent

Sam­starfs­maður Escobar frjáls ferða sinna

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Þegar best lét sáu samtök Ochoa Bandaríkjunum fyrir um áttatíu prósent af öllu innfluttu kókaíni. 
Þegar best lét sáu samtök Ochoa Bandaríkjunum fyrir um áttatíu prósent af öllu innfluttu kókaíni.  Getty

Kólumbíski kókaínbraskarinn Fabio Ochoa Vasquez, sem var einn af stofnendum Medellínhringsins, er frjáls ferða sinna eftir að hafa setið í fangelsi í Bandaríkjunum fyrir fíkniefnasmygl í tuttugu ár.

Ochoa var einn undirforingja Pablo Escobar, alræmda eiturlyfjabarónsins sem var drepinn árið 1993. Medellínhringurinn svokallaði var leiðandi í kókaínsölu á síðari hluta 20. aldarinnar. Á níunda áratugnum sá hópurinn fyrir um áttatíu prósent af kókaínmarkaði Bandaríkjanna og hóf hópurinn ofbeldisfullar herferðir gegn kólumbíska ríkinu, sem fól í sér sprengingar og launmorð. Breska ríkisútvarpið fjallar um málið.

Ochoa, sem er 67 ára, var fluttur til Bogotá höfuðborgar Kólumbíu í gær, þar sem fjölskylda hans beið hans. Innflytjendastofnun Kólumbíu greindi frá þessu og staðfesti að Ochoa er ekki eftirlýstur þar í landi, en hann afplánaði annan fangelsisdóm í Kólumbíu á tíunda áratugi síðustu aldar fyrir sinn hlut í starfsemi Medellínhringsins.

Á árunum 1997 til 1999 flutti Medallínhringurinn að meðaltali þrjátíu tonn af kókaíni inn í Bandaríkin á mánuði. Árið 1999 var Ochoa, ásamt um þrjátíu öðrum mönnum sem viðriðnir voru starfsemina, handtekinn og fluttur til Bandaríkjanna. Handtakan var hluti af umfangsmikilli aðgerð bandarískra yfirvalda gegn samtökunum. 

Fjórum árum síðar var hann dæmdur til meira en þrjátíu ára fangelsisvistar fyrir hlut sinn í starfsemi hringsins. Tuttugu og eitt ár er síðan Ochoa var dæmdur en sem fyrr segir er hann nú frjáls ferða sinna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×