Erlent

Ís­lenski fjár­hundurinn viður­kenndur af Kennel sam­tökunum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Íslenskir fjárhundar á hátíð íslenska hundsins á Árbæjarsafni sumarið 2019.
Íslenskir fjárhundar á hátíð íslenska hundsins á Árbæjarsafni sumarið 2019. Vísir/Vilhelm

Bresku hundaræktarsamtökin Kennel Club hefur viðurkennt íslenska fjárhundinn sem eina af 224 viðurkenndum hundategundum jarðar. 

Tegundin verður skráð í flokki hjarð- og fjárhunda frá 1. apríl næstkomandi. Í umfjöllun Guardian um málið segir að fyrstu heimildir um íslenska fjárhundinn sé að finna í Íslendingasögum. Þá sé vísað til íslenska fjárhundsins í öðrum þætti Hinriks V eftir Shakespeare. 

Miðillinn hefur eftir samtökunum að íslenski fjárhundurinn sé greindur og einstaklega vinalegur og notaður bæði í smalamennsku, bæði á kúm og hestum, og sem varðhundur. 

Tegundin verður 224. hundategundin sem samtökin viðurkenna. Pólskur veiðihundur var síðast viðurkenndur sem tegund af samtökunum í apríl síðastliðnum. 

Kennel Club samtökin eru þekktust fyrir hundasýninguna Crufts, sem er ein glæsilegasta hundasýning hundabransans á heimsvísu. Þrátt fyrir að hafa hlotið viðurkenningu samtakanna eru hundar af tegundinni ekki enn hæfir til að keppa í hundasýningum Kennel Club. 

Til þess að fá viðurkenningu Kennel Club samtakanna þarf hundategund að hafa fjölgað sér niður nokkrar kynslóðir. Þá er skilyrði að hægt sé að bera kennsl á einkenni og eiginleika tengda heilbrigði, skapgerð og feldi. 

Upplýsingar um íslenska fjárhundinn frá Kennel Club

  • Hæð: 46 cm (kk) og 42 cm (kvk)
  • Þyngd: 14 kg (kk) og 11 kg (kvk)
  • Líftími: 12 til 14 ár
  • Litir: rauður og hvítur, svartur og hvítur, rjómalitaður og hvítur, gylltur og hvítur, grár og hvítur, svartur og hvítur, gulbrúnn og hvítur, hvítur, rjómalitaður og svartur.
  • Skap: „Íslenskur fjárhundur, eina íslenska hundategundin, er vinalegur og dyggur hjarðhundur, lítill eða miðstór að stærð. Norræn Spitz-tegund klædd þéttum feldi. Ákaflega hollur eiganda sínum.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×