Þegar horft er til baka á árið sem nú er að líða má sjá að væntingarnar til ársins 2024 voru miklar. Árið 2023 hafði verið ár viðsnúnings eftir heimsfaraldurinn og að mörgu leyti verið okkur hagfellt, m.a. með stöðugu gengi og árið 2024 átti að vera ár vaxtar og hagsældar í greininni. Sú hefur ekki alveg orðið raunin og árið varð eins og við höfum oft áður horft upp á - fullt af áskorunum sem ekki var endilega hægt að sjá fyrir.
Rétt fyrir árslok 2023 var ákveðið að tvöfalda áður boðaðan gistináttaskatt frá 1. janúar 2024. Þessi fyrirvaralausa breyting olli því að mörg ferðaþjónustufyrirtæki sátu sjálf uppi með skattinn og náðu ekki að innheimta hann nema að hluta til á þessu ári. Skömmu síðar, eða 14. janúar, dreifðust ógnvekjandi myndir um heiminn, þar sem glóandi hraun rann yfir íbúabyggð í Grindavík. Tveimur mánuðum síðar birtist svo eftirminnileg forsíðumynd í New York Times af Reykjavík með rauðglóandi eldglæringar í bakgarðinum. Fjölmiðlaumfjöllunin um þessa atburði á Reykjanesinu varð okkur erfið.
Blikur á lofti
Það var líka heldur lágt risið á forkólfum íslenskrar ferðaþjónustu á ITB í Berlin, stærstu ferðakaupstefnu í heimi í byrjun mars mánaðar. Samstarfsaðilar okkar og endursöluaðilar á Íslandsferðum létu vita af því að sala á utanlandsferðum frá okkar lykilmörkuðum í Evrópu gengi vel til helstu samkeppnislanda okkar en samdráttur hefði orðið í sölu Íslandsferða. Greiningar á neytendahegðun á leitarvélum og bókunarvélum staðfestu þessa þróun. Öflug almenn markaðssetning samkeppnislanda eins og Noregs og Finnlands ásamt hagstæðu gengi var að skila sér vel til þessara landa.
Eins og svo oft áður sýndi greinin mikla seiglu og sveigjanleika. Þegar leið á árið fór hagurinn að vænkast, þó að telji megi mjög líklegt að samdráttur í tekjum sé staðreynd þetta árið.
Sú ákvörðun stjórnvalda árið 2022 að hætta allri almennri markaðssetningu á Íslandi sem áfangastaðar fyrir ferðamenn var farin að bíta okkur með alvarlegum hætti. Flugfélögin okkar tilkynntu á svipuðum tíma minnkandi eftirspurn eftir Íslandsferðum og hækkað hlutfall farþega yfir Atlantshafið sem millilenda á Íslandi án þess að fara út úr flugstöðvarbyggingunni. Þeir ferðaþjónustuaðilar sem það gátu, brugðust hratt við þessari þróun. Flugfélögin fóru í markaðsátak á þeim svæðum sem bóka seint og verð og þar með tekjur af óseldri ferðaþjónustu innanlands lækkaði tölvuert. Eins og svo oft áður sýndi greinin mikla seiglu og sveigjanleika. Þegar leið á árið fór hagurinn að vænkast, þó að telji megi mjög líklegt að samdráttur í tekjum sé staðreynd þetta árið.
Jákvæðir þættir
Ferðaþjónustan gekk heilt yfir vel á árinu og skilaði af sér mörg hundruð þúsunda ánægðra ferðamanna, sem skildu eftir mikil verðmæti í landinu. Við gerum ráð fyrir u.þ.b. 600 milljörðum í gjaldeyristekjur og því að skattspor greinarinnar sé á bilinu 160 - 200 milljarðar. Þannig stendur ferðaþjónustan undir kostnaði við mikilvæga innviði og kerfin okkar sem kemur öllum landsmönnum til góða.
Í samstarfi við stjórnvöld náðist mikilvægur árangur í júní þegar Alþingi samþykkti ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030. Þar er lagður grunnur að framtíð íslenskrar ferðaþjónustu með áherslu á arðsemi greinarinnar, samkeppnishæfni og sátt við land og þjóð.
Heimatilbúin vandræði
Í lok þessa árs bættust við nýjar fyrirvaralausar skattaákvarðanir. Gistináttaskatturinn, sem tvöfaldaður var um síðustu áramót verður hækkaður aftur frá 1. janúar 2025. Um leið var lagt innviðagjald á gesti skemmtiferðaskipa, 2500 krónur á dag á hvern gest, sem hefur nú þegar valdið miklum usla hjá þeim fyrirtækjum, einkum á landsbyggðinni, sem sérhæfa sig í þjónustu við skemmtiferðaskipin.
Komugjöld eru skattlagning sem veikir samkeppnishæfni greinarinnar þvert ofan í markmið stjórnvalda. Auðlindagjöldin eru líka hrein og klár viðbótar skattlagning og er alls ekki það sama og álagsstýring sem greinin hefur fjallað um.
Verðlag á íslenskri ferðaþjónustu er í hæstu hæðum. Greinin er í mikilli alþjóðlegri samkeppni þar sem samband verðs og gæða er undir smásjá neytenda alla daga. Það er mikill misskilningur að í ferðaþjónustunni leynist matarholur þar sem hægt er að sækja mikið fé til ríkisins án þess að það hafi mikil áhrif á eftirspurnina.
Það kom því mörgum á óvart að ný ríkisstjórn kynnti til sögunnar komugjöld og auðlindagjöld á ferðaþjónustuna til þess að standa undir kosningaloforðum á kjörtímabilinu. Í stað þess að gefa greininni svigrúm til að vaxa og styrkjast og stækka skattspor sitt með eðlilegum hætti á að grípa til sértækra skatta til þess að reyna að auka tekjurnar af greininni. Komugjöldin hafa komið til umræðu áður og verið slegin útaf borðinu. Í fyrsta lagi þurfa allir, líka Íslendingar, að borga komugjöld og þau myndu leggjast líka á innalandsflugið. Í öðru lagi er óheppilegt að hækka verð á flugi til Íslands, en flugverð hefur mikil áhrif á ákvörðunartöku um hvert skal haldið í frí.
Komugjöld eru skattlagning sem veikir samkeppnishæfni greinarinnar þvert ofan í markmið stjórnvalda. Auðlindagjöldin eru líka hrein og klár viðbótar skattlagning og er alls ekki það sama og álagsstýring sem greinin hefur fjallað um, m.a. á Ferðaþjónustudeginum 2024. Þarna þarf að eiga sér stað betra samtal um þessar hugmyndir og mjög mikilvægt að ekki verði flanað að neinu sem kostað gæti greinina og þar með ríkissjóð háar fjárhæðir.
Horft til framtíðar
Í upphafi ársins sem nú er að líða tókst að gera kjarasamninga til næstu fjögurra ára. Þessir kjarasamningar, lækkandi verðbólga, fyrirliggjandi ferðamálastefna og aðgerðaráætlun, ánægja gesta okkar, sterkir innviðir, mikil fjárfesting í uppbyggingu ferðamannastaða, pólitískur stöðugleiki, stórkostleg íslensk náttúra, friður og samstaða í nýrri ríkisstjórn eru allt saman þættir sem ættu að geta stuðlað að farsælli framtíð og verðmætasköpun í ferðaþjónustu á Íslandi.
Höfundur er formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.