Innlent

Á­lag vegna ölvunar og of­beldis og tvö til­felli vegna flugeldaslysa

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir hjá bráðamóttöku Landspítalans.
Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir hjá bráðamóttöku Landspítalans. Vísir/Sigurjón

Mikið álag var á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi á nýársnótt, sem einkum má rekja til ölvunar og áverka vegna ofbeldis. Tveir leituðu á bráðamóttöku vegna flugeldaslysa í nótt sem er minna en oft áður.

Það er alla jafna mikið álag á bráðamóttöku á nýársnótt og var engin undantekning þar á í nótt að sögn Hjalta Más Björnssonar yfirlæknis hjá bráðamóttöku Landspítalans. „Því miður var talsvert um það að fólk gripi til ofbeldis á svona skemmtananótt og langmesta álagið var hreinlega bara vegna ölvunar og það var talsvert að gera í að sinna afleiðingum ofbeldis og ölvunar hérna í nótt,“ segir Hjalti.

Nokkuð minna var þó um áverka vegna flugeldaslysa en oft áður að sögn Hjalta. „Nóttin var annasöm eins og venjan er á gamlárskvöld hjá okkur en það ánægjulega var að það var mjög lítið um flugeldaslys þessi áramótin. Það voru tveir einstaklingar sem komu sem betur fer bara með minniháttar áverka en það voru engir alvarlegir áverkar vegna flugelda þessi áramótin.“

Oft hafi verið meira um áverka vegna flugeldaslysa á nýársnótt. „Þetta er mun minna heldur en við höfum séð síðustu áramót og það virðist vera sem betur fer að fólk sé að fara varlegar og vonandi að skjóta eitthvað minna upp af flugeldum heldur en það gerði,“ segir Hjalti.

Það er ekki aðeins slysahætta sem stafar af flugeldum en varað hafði verið við mikilli svifryksmengun sem getur haft skaðleg áhrif á heilsu, einkum hjá viðkvæmum hópum.

„Það voru engar komur sem voru beinlýnis raktar til þess þannig að það voru engin bráð einkenni af þeirri óhóflegu mengun sem varð vegna flugeldanna í nótt en þar eru náttúrlega eiturefni sem eru skaðleg umhverfinu og heilsu fólks til langs tíma en það voru engar bráðar eitranir af því,“ segir Hjalti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×