Enski boltinn

Fá 21 árs Tékka í miðri mark­varðakrísu

Sindri Sverrisson skrifar
Antonin Kinsky hefur meðal annars spilað í Evrópudeildinni með Slavia Prag í vetur.
Antonin Kinsky hefur meðal annars spilað í Evrópudeildinni með Slavia Prag í vetur. Getty/Ion Alcoba

Enska knattspyrnufélagið Tottenham hefur fest kaup á hinum 21 árs gamla Antonin Kinsky. Þessi tékkneski markvörður kemur til félagsins frá Slavia Prag þar sem hann hefur haldið markinu hreinu í 14 af 29 leikjum á leiktíðinni.

Tottenham greiðir 12,5 milljónir punda fyrir Kinsky sem mætir til Lundúna í miðri markvarðakrísu hjá félaginu.

Gulielmo Vicario, aðalmarkvörður Tottenham, hefur nefnilega verið frá keppni síðan hann meiddist í ökkla í 4-0 sigrinum gegn Manchester City 24. nóvember.

Fraser Forster hefur fyllt í skarðið fyrir Vicario en missti af 2-1 tapleiknum gegn Newcastle í gær vegna veikinda.

Hinn 25 ára gamli Brandon Austin lék því sinn fyrsta alvöru leik fyrir Tottenham í gær, eftir að hafa verið á mála hjá félaginu í níu ár.

Kinsky, sem er U21-landsliðsmarkvörður, skrifaði undir samning við Tottenham sem gildir til ársins 2031 og bíður nú eftir atvinnuleyfi. 

Tottenham hefur aðeins unnið tvo af síðustu ellefu leikjum sínum og er í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×