Sport

Skip Bayless kærður fyrir kyn­ferðis­lega á­reitni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hinn 73 ára Skip Bayless hætti hjá Fox Sports í fyrra.
Hinn 73 ára Skip Bayless hætti hjá Fox Sports í fyrra. getty/Ian Maddox

Hárgreiðslukona sem starfaði hjá Fox Sports á árunum 2012-24 hefur kært Skip Bayless fyrir kynferðislega áreitni. Í kærunni kemur meðal annars fram að Bayless hafi boðist til að greiða henni 1,5 milljón Bandaríkjadala fyrir kynlíf.

Bayless er þekktur álitsgjafi um íþróttir í Bandaríkjunum. Hann var lengi á ESPN og lét svo gamminn geysa í þættinum Undisputed hjá Fox á árunum 2016-24.

Í kærunni sem telur 42 blaðsíður og var lögð fram á föstudaginn kemur fram að hárgreiðslukonan Noushin Faraji saki Bayless um að hafa snert hana á óviðeigandi hátt og boðist til að greiða henni fyrir kynlíf.

Viku eftir að Bayless bauð Faraji 1,5 milljón Bandaríkjadala í skiptum fyrir kynlíf réðist hann aftur til atlögu. Faraji bað hann að hætta og spurði hvort hann ætti ekki konu. Bayless spurði hana á móti hvort hún væri ekki múslimi og hvort faðir hennar ætti ekki 3-4 eiginkonur. Faraji svaraði því til að faðir hennar væri látinn. Við það brá Bayless og hún gekk í burtu.

Konan hætti að vinna hjá Fox í fyrra en í kærunni lýsir hún stöðinni sem kvenfjandsamlegum og rasískum vinnustað þar sem kvartanir hennar hafi verið virtar að vettugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×