Fregnir bárust af því á dögunum að ísraelskur hermaður í Brasilíu hefði yfirgefið landið í skyndi eftir að dómari fyrirskipaði lögreglu að hefja rannsókn á ásökunum aðgerðasinna um að hann hermaðurinn hefði átt þátt í stríðsglæpum á Gasa.
Átti hann þannig á hættu að verða handtekinn í Brasilíu.
Það voru samtökin Hind Rajab Foundation í Belgíu sem sökuðu hermanninn um stríðsglæpi en þau sögðu sannanir liggja fyrir þess efnis að hann hefði komið að því að eyðileggja heimili og svipta fólk lífsviðurværinu.
Þá sögðu þau yfirlýsingar hans og hegðun til samræmis við tilraunir Ísraela til þjóðarmorðs á Gasa.
Ísraelsher hafði þegar varað hermenn við því að deila upplýsingum um hermennsku sína á samfélagsmiðlum, til að koma í veg fyrir uppákomur af þessu tagi. Nú hefur, eins og fyrr segir, fjölmiðlum hins vegar verið bannað að nota full nöfn og birta myndir og einnig að nefna hermenn í tengslum við einstaka hernaðaraðgerðir.
Að sögn Nadav Shoshani, talsmanni Ísraelshers, hafa nokkur tilvik á borð við það í Brasilíu komið upp. Öll eiga það sameiginlegt að aðgerðasinnar hafi leitað til yfirvalda og hvatt þau til að hefja rannsókn gegn hermönnum Ísrael.
Alþjóðlegar handtökuskipanir hafa þegar verið gefnar út vegna Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísrael og Yoav Gallant, fyrrverandi varnarmálaráðherra.