Sport

Járnkona sundsins kveður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katinka Hosszu birti mynd af sér með Ólympíugullverðlaunin í kveðjupistli sínum.
Katinka Hosszu birti mynd af sér með Ólympíugullverðlaunin í kveðjupistli sínum. @hosszukatinka

Þrefaldi Ólympíumeistarinn Katinka Hosszu frá Ungverjalandi hefur ákveðið að setja sundhettuna upp á hillu og hætta að keppa í sundíþróttinni.

Hosszu er þekkt sem „Járnkona sundsins“ og hún er án vafa í hópi bestu sundkvenna sögunnar.

Hún er nú 35 ára gömul og hefur tekið þátt í fimm Ólympíuleikunum. Hún var aðeins fimmtán ára gömul á þeim fyrstu í Aþenu 2004.

Öll þrenn gullverðlaun sín vann hún á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Hún vann einnig silfurverðlaun á þeim leikum.

Hosszu hefur einnig unnið níu heimsmeistaratitla í fimmtíu metra laug og á enn heimsmetið í 200 metra fjórsundi.

Hún hefur einnig unnið sautján gullverðlaun á HM í stuttri laug. Alls vann hún 64 gull, 20 silfur og 13 brons á stórmótum sínum á ferlinum eða á ÓL, HM eða EM.

„Í þrjátíu ár hefur sundlaugin verið heimili mitt, heilagur staður þar sem ég hef fundið innblástur og styrk,“ skrifaði Katinka Hosszu í kveðjupósti sínum á samfélagsmiðlum.

Hún segist vera sátt við feril sinn og má líka vera það.

„Verðlaun og met eru dýrmæt en það sem stendur fyrst og fremst eftir ferilinn er ævarandi ást mín á sundinu,“ skrifaði Hosszu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×