Enski boltinn

David Moyes aftur orðinn knatt­spyrnu­stjóri Ever­ton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Moyes var síðast knattspyrnustjóri hjá West Ham en var látinn fara frá Lundúnafélaginu.
David Moyes var síðast knattspyrnustjóri hjá West Ham en var látinn fara frá Lundúnafélaginu. Getty/Vince Mignott

David Moyes er tekinn við sem knattspyrnustjóri Everton en félagið tilkynnti þetta á miðlum sínum í morgun.

Hinn 61 árs gamli Moyes tekur við liðinu af Sean Dyche sem var rekinn nokkrum klukkutímum fyrir síðasta leik liðsins, bikarleik sem Everton vann.

Moyes skrifar undir tveggja ára samning. Hann snýr aftur á Goddison Park tólf árum eftir að hann stýrði félaginu síðast.

Moyer stýrði Everton í meira en fimm hundruð leikjum frá 2002 til 2013.

Nýir bandarískir eigendur félagsins treysta á reynslu Moyes í að bjarga liðinu frá falli úr ensku úrvalsdeildinni.

Þegar Moyes tók við Everton í byrjun aldarinnar þá var félagið einnig í fallbaráttu en nokkrum árum síðar kom hann liðinu í Evrópukeppni. Hann stóð sig það vel með liðið að Manchester United réð hann sem stjóra síns félags þegar Sir Alex Ferguson hætti.

Everton er nú í sextánda sæti með sautján stig úr nítján leikjum. Liðið hefur aðeins unnið þrjá leiki.

Everton hefur verið í efstu deild á Englandi síðan 1954.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×