Borgarsamfélag höfuðborgarsvæðisins breytist ört. Senn búa engin börn í þremur af hverjum fjórum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Barnlausum fjölskyldum fjölgar hlutfallslega mjög hratt. Íbúðahverfi eins og við þekkjum þau með börn að leik, skólum og leikvöllum verða ekki sá burðarás í skipulagi höfuðborgarsvæðisins eins og verið hefur.
Frá árinu 1970 hefur börnum ekki fjölgað á Íslandi. Fjöldi einstaklinga 17 ára og yngri hefur verið stöðugur, rétt um 80 þúsund. Á þessum 55 árum hefur fjölgunin á Íslandi verið í hópi fólks á vinnumarkaðsaldri sem er 18 til 64 ára. Hin síðari ár hefur aukning verið hröð í hópi þeirra sem eru eldri en 64 ára og er við eftirlaunaaldur (sjá mynd 1). Á næstu 15 árum mun verða veruleg fjölgun Íslendinga í þeim hópi.
Breytingar á samsetningu mannfjölda á Íslandi eru mjög örar um þessar mundir. Fæðingartíðni, sem er fjöldi fæddra barna á hverja móður, hefur lækkað hratt. Á árinu 2034 verða að öllum líkindum þau athyglisverðu tímamót að fjöldi þeirra sem fæðist hér á landi og þeirra sem deyja verður sá sami. Allt bendir þó til þess að Íslendingum muni eftir það halda áfram að fjölga sem þýðir að eftir áratug verður mannfjöldaaukning hér á landi aðeins útskýrð með aðfluttum nýjum Íslendingum. Í dag eru nýir Íslendingar 90% fullorðnir einstaklingar á vinnumarkaðsaldri og 10% börn sem með þeim koma.
Hin hraða samfélagsbreyting sem á sér stað birtist einnig í að fjöldi barna og fjöldi þeirra sem eru 65 ára og eldri verður sá sami eftir aðeins 15 ár. Gagnlegt er að horfa til Norðurlanda til samanburðar en aldurssamsetning okkar Íslendinga er um 15 árum á eftir því sem við sjáum í Noregi, Svíþjóð og Danmörku (sjá mynd 2).
Íbúum í hverri íbúð fækkar ört vegna minnkandi fjölskyldustærðar
Sú þróun sem lýst er að ofan hefur mikil áhrif á húsnæðismarkaðinn og þörfina fyrir húsnæði. Íbúum í hverri íbúð hefur fækkað ört á síðustu árum á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir ört vaxandi íbúðaskort. Eftir lok síðari heimstyrjaldarinnar var mikill uppgangur hér á landi, fæðingartíðni hækkaði hratt og varð 4,5 börn á hverja móður. Síðan þá hefur hún lækkað hratt og er núna nærri 1,5 (sjá mynd 3). Eins hefur hlutfall kvenna sem ekki eignast barn farið úr því að vera ein af hverjum tíu konum árið 1970 í að vera núna næstum fjórða hver. [1] Ásamt því að þeim sem eldri eru hefur fjölgað hratt þýðir þetta að fjölskyldur minnka, þ.e. færri búa saman í hverri íbúð. Rétt fyrir aldamótin síðustu bjuggu um 3 íbúar í hverri íbúð og þegar horft er á samsetningu nýrra Íslendinga og þróun fjölskyldustærðar næstu 15 ára er ljóst að íbúum í hverri íbúð mun fækka enn hraðar og verða að jafnaði í kringum 2 sem er sami íbúafjöldi í hverri íbúð og nú er á hinum Norðurlöndunum.
Staðreyndin er sú að þeim einstaklingum sem eiga uppkomin börn fjölgar hlutfallslega hratt og auk þess er stór hluti nýrra Íslendinga fólk sem er eitt og barnlaust og búseta tekur mið af því.
Á Norðurlöndunum á sér einnig stað mikil breyting á búsetumynstri sem sést vel á gríðarlegri fjölgun einmenningsheimila. Nú er svo komið að á 40% allra heimila í Noregi býr fólk eitt og í Danmörku og Svíþjóð er nú annað hvert heimili einmenningsheimili. Engin ástæða er til annars en að ætla að sama þróun eigi sér stað hér á landi á næstu árum.
Þessi staðreynd þýðir að 100 Íslendingar þurftu 33 íbúðir rétt fyrir aldamótin síðustu en þurfa 50 eftir 15 ár, þ.e. 50% fleiri íbúðir.
Nýjar áskoranir í skipulagi hverfa – örva þarf hringrás íbúa
Af þeim 77 þúsund íbúðum sem þarf að byggja á næstu 15 árum munu barnlausar fjölskyldur setjist að óbreyttu í um 70 þúsund þeirra. Fjöldi einmenningsheimila 65 ára og eldri hefur nær tvöfaldast á síðustu 10 árum og mun halda áfram að fjölga af miklum krafti. Við þessar aðstæður er nauðsynlegt að skipulag íbúðahverfa og hönnun híbýla taki mið af þörfum íbúanna. Stórauka þarf fjölbreytni íbúðaúrræða. Hjarta nýrra íbúða hverfa þurfa síður að vera leik- og grunnskólar og leiksvæði barna og samgönguásar og aðrir innviðir þurfa að taka mið af mjög fjölbreyttum þörfum íbúa.
Byggja þarf ný hverfi í dag fyrir aðra hópa fólks en gert var fyrir 20 árum, hvað þá 40 árum. Við uppbyggingu hverfa nú þarf að taka sérstakt tillit til þarfa fólks á þriðja æviskeiði sem býr eitt eða með maka. Skapa þarf aðlaðandi valkosti fyrir þennan aldurshóp til að skapa forsendur fyrir því að einstaklingar og pör komin yfir miðjan aldur flytji fyrr úr stærri íbúðum sem hentuðu á meðan börnin bjuggu þar. Þannig skapast skilyrði fyrir að losa hentugt húsnæði fyrir barnafjölskyldur. Með því að bjóða upp á fjölbreytni og spennandi valkosti fyrir þann stóra hóp sem er á þriðja æviskeiði er hægt að hraða miklivægri hringrás íbúa um hverfi. Þannig nýtast innviðir betur og fleiri fá tækifæri til að auka lífsgæðin með því að búa í húsnæði við hæfi. Með þessu móti stuðlar vöxtur byggðar að markmiðum um sjálfbæra þróun sem er lykilþáttur í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.
Heilsa og lífsgæði í forgrunni
En hverjar eru þarfir íbúa sem eru komnir af léttasta skeiði og búa ýmist einir eða aðeins með maka? Þörfin fyrir útivist, heilsurækt og að viðhalda heilsu í leik og starfi verður æ mikilvægari eftir því sem á ævina líður. Lífsgæði og heilsa fara hönd í hönd. Þegar fækkar í heimili dregur úr félagslegu samneyti en um leið verða heimilisstörfin léttari og þörfin fyrir aðkeypta hvunndagsþjónustu eins og mat, drykk og hreinlæti eykst. Þekkt er að helstu áskoranir efri ára eru einmannaleiki og félagsfælni og því er þörfin fyrir félagslegt samneyti afar mikilvæg. Þegar árin færast frekar yfir eykst síðan þörfin fyrir aukna heilbrigðis-, stuðnings- og hjúkrunarþjónustu en mikilvægt er að hún sé hluti af skipulagi og hönnun íbúðahverfa framtíðarinnar og að aðgengi að allri þjónustu verði gott.
Þessi staðreynd þýðir að 100 Íslendingar þurftu 33 íbúðir rétt fyrir aldamótin síðustu en þurfa 50 eftir 15 ár, þ.e. 50% fleiri íbúðir.
Íbúðahverfi sem byggja þarf á næstu áratugum þurfa að mæta þörfum fólks sem eru 60 ára og eldri í mun ríkari mæli en gert hefur verið og sjá má enn í dag í drögum að nýjum og óbyggðum hverfum. Skipulag hverfa, uppbygging innviða og hönnun híbýla þarf að taka mið af félagslegum þörfum fólks á þriðja og fjórða æviskeiði. Samhliða breyttu neyslumynstri og ferðavenjum þarf að huga sérstaklega að sjálfbærni og gönguvænu umhverfi allt árið í kring með þjónustu og verslunum í næsta nágrenni. Mannvirki á borð við vistgötur, upphitaða göngu- og hjólastíga, íþróttahús, leikvelli fyrir golf, tennis, badminton og aðrar greinar sem fólk stundar fram eftir ævi, kaffihús, félagsheimili, veitingastaði og nýsköpunar-, list- og menntasetur verða að vera í forgrunni skipulags. Hönnun híbýla þarf að taka mið af þörfum fólks fyrir auðvelt samneyti við annað fólk til að takast á við einmanaleika og félagsfælni en á sama tíma þarf að mæta ríkum óskum um einrúm og einkalíf.
Fjölbreytt byggð fyrir alla
Á árinu 2039, eða eftir 15 ár, verða höfuðborgarbúar 60 ára og eldri um 80 þúsund að tölu og munu þeir búa í rúmlega helming þeirra íbúða sem til eru á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir. Hverfi þessi verða því ekki einangruð svæði á höfuðborgarsvæðinu heldur stór hluti þess. Framundan er mikið breytingaskeið á höfuðborgarsvæðinu. Ný hverfi þurfa að bjóða upp á mun fjölbreyttari úrræði en áður hafa þekkst og þarfir þeirra sem eldri eru munu setja svip sinn á borgarskipulag með sama hætti og börnin og þarfir þeirra mótuðu uppbyggingu byggðalaga og hverfa á síðari hluta síðustu aldar. Breytingaskeiðið er hafið.
Höfundur er famkvæmdastjóri Aflvaka Þróunarfélags sem hefur að markmiði að auka lífsgæði fólks á efri árum með sérhæfðum búsetuúrræðum.
[1] Væntur fjöldi barna á hverja konu út frá fæðingarári.