Svæðið var fyrst skilgreint af hernum þegar hann hóf aðgerðir sínar í kjölfar árása Hamas á byggðir Ísraelsmanna 7. október 2023. Svæðið var stækkað töluvert 6. maí 2024 og náði þá einnig yfir borgirnar Khan Younis og Deir al-Balah.
Talið er að um milljón manns dvelji á svæðinu, margir í tjöldum. Innviðir eru takmarkaðir og sömuleiðis aðgengi að neyðaraðstoð.
BBC segist ekki geta fullyrt að allar árásirnar hafi verið af hálfu Ísraelshers en herinn hefur aðeins gengist við 28 árásum frá 6. maí síðastliðnum. Herinn segist aðeins hafa staðið í aðgerðum á umræddu svæði til að ná til hryðjuverkamanna sem skýli sér á bak við almenna borgara.
Samkvæmt BBC hafa um það bil 550 látist í árásunum 97. Mannskæðasta árásin átti sér stað 13. júlí síðastliðinn, þegar 90 létu lífið, þeirra á meðal Mohammed Deif, sem er sagður hafa verið einn skipuleggjenda árásanna 7. október 2023.
Miðillinn hefur eftir heimildarmönnum að sprengingar á svæðinu séu daglegt brauð og þá breytist skilgreiningar á hinu „örugga svæði“ dag frá degi, í takt við nýjustu rýmingartilskipanir. Þannig sé í raun ekkert svæði á Gasa „öruggt“ og íbúar hvergi óhultir.