Þetta kemur fram í frétt mbl um málið.
Konan birti nafnlausa færslu á Facebook-hópnum Baráttuhópur gegn ofbeldismenningu þar sem hún segir að kvenkyns starfsmaður á vegum líkamsræktarinnar hafi komið inn í klefann til að láta vita að karlmaður væri á leið inn í klefann til að sinna viðgerðum inni á klósettinu.
Konan hafi sjálf verið nálægt innganginum og því heyrt tilkynninguna ásamt um átta til tíu öðrum konum. Minna en helmingur kvennanna hafi heyrt í stúlkunni og því hafi fjöldi kvenna í klefanum og í sturtunni ekki vitað af manninum. Sjálf hafi hún rétt náð að sveipa handklæði um sig áður en maðurinn labbaði inn.
Þá segir konan að þegar maðurinn gekk inn hafi hann haldið flissandi fyrir augu sín og sagt „ég lofa að kíkja ekki stelpur“ en þrátt fyrir það kíkt og horft í augu hennar. Á leið út úr stöðinni hafi hún svo heyrt í annarri konu kvarta yfir málinu í móttökunni.
Segir konuna hafa verið eina í klefanum
Fréttastofa hefur ítrekað reynt að ná tali af Birni Leifssyni vegna málsins en ekki hefur náðst í hann. Hann ræddi hins vegar við mbl um málið og sagði þar að konan færi með rangt mál. Hún hafi verið eini iðkandinn í klefanum þegar maðurinn, sem Björn segir vera bróður sinn, Sigurð Leifsson, gekk inn.

Þá segir Björn að kvenkyns starfsmann World Class hafi farið inn og kallað hátt og skilmerkilega að karlkyns viðgerðarmaður væri á leið inn í klefann. Maðurinn hefði aldrei gengið inn iðkendum að óvörum.
Björn segir í viðtali við mbl að fleiri þættir í nafnlausu færslunni standist ekki standast skoðun en ekki kemur fram hvaða þættir það eru.
Spurður af blaðamanni mbl hvort hefði ekki verið réttara að sinna viðgerðinni utan opnunartíma sagði Björn: „Það var nú enginn drepinn en þetta er tveggja til þriggja mínútna verk og yfirleitt gert þegar á þarf að halda til að allir geti fengið svona þjónustu.“