Handbolti

Stór­sigur hjá Slóvenum í fyrsta leik okkar riðils

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tilen Kodrin fagnar einu marka Slóvena í stórsigrinum á Kúbu í kvöld.
Tilen Kodrin fagnar einu marka Slóvena í stórsigrinum á Kúbu í kvöld. Getty/Luka Stanz

Slóvenar byrjuðu heimsmeistaramótið í handbolta á stórsigri á Kúbverjum en þessar þjóðir eru með Íslendingum í riðli á mótinu.

Það var búist við því að Ísland og Slóvenía berjist um efsta sæti riðilsins og þessi úrslit gera ekkert annað en að ýta undir þá spá.

Slóvenar unnu leikinn á endanum með 22 marka mun, 41-19.

Slóvenar breyttu stöðunni úr 3-3 í 16-4 með 13-1 spretti í upphafi leiks og voru síðan níu mörkum yfir í hálfleik, 18-9. Seinni hálfleikurinn var síðan algjör formsatriði þar sem allir leikmenn slóvenska liðsins fengu að spreyta sig.

Aleks Vlah átti góðan leik með Slóvenum og skoraði átta mörk úr níu skotum, flest þeirra með óverjandi þrumuskotum.

Frakkarnir léku sér á sama tíma að Kúvætum með 24 marka sigri, 43-19, í fyrsta leik þeirra þjóða á HM. Frakkarnir voru þrettán mörkum yfir í hálfleik, 21-8, eftir að hafa endað hálfleikinn á 17-3 spretti

Spánverjar unnu níu marka sigur á Síle, 31-22. Sílemenn voru yfir framan af leik en Spánverjar voru komnir fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17-13.

Ítalir voru ekki í miklum vandræðum með Alsíringa. Þeir voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 16-11, og unnu með níu marka mun, 32-23.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×