Nudd og heilsulind
Það er fátt betra en að fara í nudd og slaka á í einni af heilsulindum landsins. Úrvalið stækkar stöðugt, þannig að allir ættu að finna eitthvað sem hentar þeirra þörfum. Hvort sem þú kannt að meta djúpnudd eða heilsuferð sem snýr að andlegri og líkamlegri vellíðan, þá bjóða heilsulindir landsins upp á einstaka upplifun sem nærir bæði líkama og sál.

Stefnumót í miðborginni
Komdu bóndanum á óvart með ljúfri kvöldstund á veitingahúsi í miðborg Reykjavíkur. Fjölmörg veitingahús bjóða upp á fjölrétta matseðil í tilefni bóndadagsins sem nostra við bragðlaukana.

Rómantísk kvöldstund heima
Fáðu pössun fyrir börnin og komdu ástinni þinni á óvart með rómatískri kvöldstund heima. Njótið þess að vera bara tvö, kveiktu á kertaljósum og eldaðu ljúffenga máltíð. Eins og máltækið segir er leiðin að hjarta mannsins í gegnum magann.

Námskeið
Úrvalið af námskeiðum fyrir fullorðna fer ört stækkandi, og það er alltaf spennandi að prófa eitthvað nýtt saman. Farðu með bóndanum á skemmtilegt námskeið, hvort sem það er að læra að búa til alvöru kokteila, sushi, indverska matargerð, dansa salsa eða læra galdurinn við að para bjór og mat saman.

Sveitarómantík og afslöppun
Farðu með bóndann í stutta ferð út fyrir borgarmörkin á hótel sem gerir ykkur kleift að slaka á og aftengjast hversdagslífinu. Mörg hótel á landsbyggðinni bjóða upp á aðgengi að góðum veitingastað, heilsulind og heitum pottum, þar sem þið getið notið samveru og slakað á í rólegu umhverfi.

Sund og ísbíltúr
Það þarf stundum ekki að flækja hlutina – einfalt er oft best. Farið saman í sund og ísbíltúr eftir á.
