Íslenski boltinn

ÍBV fær stóran og sterkan miðvörð

Sindri Sverrisson skrifar
Jovan Mitrovic er genginn til liðs við ÍBV.
Jovan Mitrovic er genginn til liðs við ÍBV. ÍBV

ÍBV heldur áfram að styrkja sig fyrir komandi átök í Bestu deildinni í fótbolta eftir að hafa unnið sér sæti þar á nýjan leik á síðustu leiktíð.

Serbneski knattspyrnumaðurinn Jovan Mitrovic kemur til ÍBV frá serbneska liðinu FK Indjija, þar sem hann hefur leikið síðustu 18 mánuði, í næstefstu deild. Jovan verður 24 ára á morgun, 25. janúar.

Í tilkynningu ÍBV segir að Mitrovic hafi leikið stórt hlutverk hjá Indjija og spilað nær allar mínútur á þessari leiktíð en síðasti leikur hans var 14. desember. Hann var fyrirliði í átta af tuttugu leikjum.

„Jovan er stór og sterkur miðvörður, sem þrátt fyrir ungan aldur hefur verið fyrirliði í liði sínu í Serbíu undanfarin ár. Við erum gríðarlega spenntir fyrir þessum leikmanni,“ segir Þorlákur Árnason sem tók við af Hermanni Hreiðarssyni sem þjálfari ÍBV í október.

ÍBV hafði áður fengið sænskan miðvörð, Mattias Edeland, og serbneska miðjumanninn Milan Tomic. Þá komu Omar Sowe og Arnór Ingi Kristinsson frá Leikni, Jörgen Pettersen frá Þrótti og Birgir Ómar Hlynsson að láni frá Þór.

Það styttist óðum í það að keppni í Bestu deildinni hefjist en Eyjamenn byrja á útileik við Víkinga 7. apríl og spila svo við hina nýliðana, Aftureldingu, í Mosfellsbæ 13. apríl. Fyrsti heimaleikurinn er áætlaður 24. apríl, gegn Fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×