Fótbolti

Fékk rautt spjald fyrir að slá eigin liðsfélaga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stéphane Bahoken var mjög hissa að fá rauða spjaldið.
Stéphane Bahoken var mjög hissa að fá rauða spjaldið. @cbssportsgolazo

Atvik í tyrkneska fótboltanum um helgina hefur vakið athygli. Það sýnir og sannar að allt ofbeldi inn á vellinum er stranglega bannað sama gegn hverjum það beinist.

Því fékk Stéphane Bahoken framherji Kayserispor, að kynnast í 5-2 tapi á móti Sivasspor í tyrknesku úrvalsdeildinni.

Leikmenn Kayserispor þurftu að spila manni færri frá 23. mínútu vegna uppátækis hans.

Bahoken fékk að líta rauða spjaldið fyrir að slá eigin liðsfélaga. Hann var þá orðinn mjög pirraður en liðið var þá komið 2-0 undir.

Hann var mjög ósáttur við Miguel Cardoso sem hafði gefið aukaspyrnu á hættulegum stað. Bahoken hrinti fyrst Cardoso en hætti ekki þar og endaði á því að slá hann.

Dómarinn hikaði ekki þótt að um liðsfélaga hafi verið að ræða. Hann tók upp rauða spjaldið og rak Bahoken af velli.

Bahoken er mikill reynslubolti, 32 ára gamall Kamerúnmaður, sem hefur spilað yfir tvö- hundruð leiki og yfir tuttugu landsleiki.

Þetta er hans annað rauða spjald á tímabilinu en hann fékk einnig tvö gul spjöld í leik á móti Alanyaspor í desember. Hann sem framherji er nú með jafnmörg mörk og rauð spjöld á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×