Forsvarsmenn úkraínska hersins hafa enn sem komið er lítið tjáð sig um gagnsókn þessa en rússneskir herbloggarar tala um að árásirnar hafi verið gerðar með þrjátíu til fimmtíu skrið- og bryndrekum.
Hversu vel þessar árásir gengu er enn nokkuð óljóst en myndefni hefur samkvæmt hugveitunni Institute for the study of war sýnt að þeir sóttu í einhverjum tilfellum fram um fimm kílómetra inn fyrir varnarlínu Rússa.
Sóknir þessar voru gerður til austurs, suðaustur af bænum Sudzha, sem er stærsti bærinn sem Úkraínumenn stjórna enn í Kúrsk og helsta vígi þeirra.
Daily Ukraine map thread for Thursday 6th February 2025
— Ukraine Control Map (@UAControlMap) February 6, 2025
Highlights: Ukrainian mechanized and motorized forces attacked towards Ulanok, Kursk, about 5-7 km from the line of contact this morning seemingly bypassing Cherkasskaya Konopelka. Geolocations show Ukrainian forces east of… pic.twitter.com/HUYUpgbUyi
Frá því Úkraínumenn komu Rússum á óvart með sókn þeirra inn í Kúrsk-hérað í Rússlandi, fyrir rétt rúmu hálfu ári, hefur yfirráðasvæði þeirra þar dregist töluvert saman. Úkraínumenn segjast hafa fellt fjölmarga Rússa og Norðurkóreumenn í Kúrsk á undanförnum mánuðum.
Guardian segir Vladimír Pútín, forseta Rússlands, hafa viðurkennt í samtali við tvo ríkisstjóra af svæðinu að ástandið í Kúrs sé „mjög erfitt“.
Á fundinum með ríkisstjórunum hrósaði Pútín nokkrum stórfylkjum landgönguliða og fallhlífarhermanna, auk annarra sveita sem berjast gegn Úkraínumönnum í Kúrsk.
ISW segir úkraínska hermenn í Kúrsk hafa haldið tugum þúsunda af bestu hermönnum Rússlands þar og í millitíðinni hafi ekki verið hægt að nota þá annarsstaðar á víglínunni, eins og í suðaustur Úkraínu, þar sem Rússar hafa lengi sótt hægt og rólega fram.