Lífið

Drake fékk það ó­þvegið í hálfleikssýningu Kendrick Lamar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kendrick Lamar á sviði fyrir miðju.
Kendrick Lamar á sviði fyrir miðju. Cindy Ord/Getty Images

Bandaríski rapparinn Kendrick Lamar átti sviðið í hálfleik Ofurskálarinnar í nótt. Beðið var eftir komu hans með mikilli eftirvæntingu og kynnti stórleikarinn Samuel L. Jackson hann svo á svið í hlutverki bandaríska erkifrændans Sam.

Rapparinn hefur eldað grátt silfur með erkifjanda sínum rapparanum Drake og biðu margir með öndina í hálsinum eftir því að hann tæki lag sitt Not Like Us, þar sem hann skýtur föstum skotum á kanadískan kollega sinn og ýjar að því að hann sé haldinn barnagirnd. Atriði Lamar má horfa á neðst í fréttinni.

Lamar hótaði því nokkrum sinnum að taka lagið áður en hann lét loksins undan rétt fyrir lok sýningarinnar. Rappararnir fóru mikinn í deilum sín á milli síðasta sumar og skutu föstum skotum að hvor öðrum. Drake hefur lögsótt Kendrick Lamar vegna lagsins og grínaðist Kendrick með það á sviði í gærkvöldi.

Hann ávarpaði Drake í myndavélina, sagði „Hey Drake,“ áður en hann tók hið umdeilda lag. Líklega að ráðleggingum lögfræðinga sinna sleppti hann því þó að kalla Drake berum orðum barnaníðing.

Meðal annarra sem létu sjá sig var söngkonan SZA sem tók tvö lög með rapparanum. Þá mætti tennis stjarnan Serena Williams óvænt á svið og tók dansinn undir lagi rapparans um Drake, sem vill svo til að er hennar fyrrverandi kærasti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.