Innlent

Ó­vissa í Ráð­húsinu og dýrustu aug­lýsingar í heimi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Telma Tómasson les kvöldfréttir í kvöld.
Telma Tómasson les kvöldfréttir í kvöld. Vilhelm

Borgarfulltrúar halda spilunum þétt að sér í meirihlutaviðræðum sem standa yfir þvert á alla flokka. Við heyrum í borgarfulltrúum og förum yfir atburðarás dagsins í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.

Fundi kennara, ríkis og sveitarfélaga hjá ríkissáttasemjara lauk án árangurs um þrjúleytið. Við tökum stöðuna á kennaradeilunni eftir að Félagsdómur dæmdi verkföll kennara ólögmæt og hittum kennara sem mættu aftur til vinnu í dag. Þeir klæddust svörtu við störf og lýsa deginum í dag sem sorgardegi.

Við fáum einnig forsmekkinn af áhrifaríku viðtali Sunnu Sæmundsdóttur við foreldra Bryndísar Klöru Birgisdóttur, sem lést eftir hnífsstungu á menningarnótt. Viðtalið verður sýnt í heild í Kompás strax að loknum fréttum og sporti á Stöð 2. 

Sjónvarpsauglýsingar standa enn fyrir sínu á öld samfélagsmiðla, ekki síst í tengslum við risaviðburði eins og bandarísku Ofurskálina í nótt. Þetta er mat sköpunarstjóra hjá auglýsingastofunni Ennemm. Við hittum hann í fréttatímanum og rýnum í Ofurskálarauglýsingar, sem geta kostað marga milljarða.

Í sportinu heyrum við í Baldvin Þór Magnússyni, sem hljóp á nýju Íslandsmeti þegar hann tryggði sér Norðurlandameistaratitilinn í þrjú þúsund metra hlaupi innanhúss í Finnlandi, og berum sögusagnir um félagskipti undir Viktor Gísla Hallgrímsson landsliðsmarkvörð í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×